Vignir Vatnar Íslandsmeistari í skák

Vignir Vatnar Stefánsson við keppni á EM 2023 í Serbíu …
Vignir Vatnar Stefánsson við keppni á EM 2023 í Serbíu í mars. Ljósmynd/EICC2023

Vignir Vatnar Stefánsson, nýjasti stórmeistari landsins, tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í skák í kvöld eftir æsispennandi bráðabana. Landsliðsflokki Skákþings Íslands lauk í kvöld en þar öttu tólf menn kappi um titilinn.

Eftir ellefu daga baráttu voru þrír efstir og jafnir með 8,5 vinninga af 11 mögulegum, Vignir Vatnar og stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson og Guðmundur Kjartansson.

Spennandi lokadagur

Í lok móts fór fram bráðabani milli þremenninganna með styttri tímamörkum. Vignir Vatnar er fær hraðskákmaður en þeir eldri, Hannes Hlífar og Guðmundur, reynslumeiri. Hinn tvítugi Vignir vann Guðmund í tvígang í innbyrðis skákum þeirra og gerði tvö jafntefli við Hannes Hlífar.

Fyrir úrslitadaginn voru Hannes Hlífar og Vignir Vatnar jafnir með átta vinninga hvor á toppnum. Guðmundur fylgdi fast á hæla þeim með sjö og hálfan vinning í 2. sæti. Hilmir Freyr Heimisson var ekki langt frá Guðmundi með sjö vinninga.

Vignir Vatnar varð í mars á þessu ári sextándi stórmeistari Íslands frá upphafi þegar hann vann lokaskákina á opna Arandjelovac-mót­inu í Serbíu. Af því tilefni sagði Vignir Vatnar í viðtali við mbl.is að hann stefndi að því að verða Íslandsmeistari í maí og hefur hann nú náð því markmiði sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert