„Ég held að ég sé alveg búin að sýna þessum eldri körlum það að ég stend föst á mínu og þess vegna held ég að ég njóti þeirra stuðnings í dag en það var ekki þannig fyrir tveimur til þremur árum,“ sagði Þórhildur Garðarsdóttir, nýkjörinn formaður KR, í Dagmálum.
Þórhildur er fyrsta konan til þess að gegna formennsku hjá félaginu í 124 ára sögu þess en hún var varaformaður KR áður en hún var kjörin formaður á dögunum.
„Þeir eru hins vegar að mýkjast og mér var tekið opnum örmum í dag,“ bætti Þórhildur við.
„Heilt yfir fékk ég mjög mikinn stuðning og hvatningu að halda framboðinu til streitu,“ sagði Sigríður Elín Guðlaugsdóttir en hún var kjörin formaður Fram á dögunum og er einnig fyrsta konan til þess að gegna embættinu í 115 ára sögu þess.
„Ég fékk líka nokkur áhugaverð símtöl frá ókunnugum körlum sem voru ekkert sérstaklega hvetjandi þannig að jú, það eimir eitthvað eftir af þessu, en ég held alltaf í vonina um að heimurinn sé að breytast.
Ástæðan fyrir því að maður leggur í þetta er sú að maður vill bæta umhverfið sitt, hvar sem maður kemur, og ég held að fólk sé búið að átta sig á því að þetta er alls engin hallarbylting,“ sagði Sigríður Elín meðal annars.