Block vex upp úr þakinu

Rory McIlroy samgladdist Michael Block eftir að hann fór holu …
Rory McIlroy samgladdist Michael Block eftir að hann fór holu í höggi. AFP/Andrew Redington

„Við erum á fimmtándu,“ segir sjónvarpsþulurinn með hægð. Golf er íþrótt settlega og yfirvegaða mannsins. Kylfingurinn slær frá teig. „Ævintýrið okkar,“ bætir þulurinn við, meðan boltinn svífur tignarlega um loftin blá, röddin lítið eitt örari. „Verður bara betra,“ botnar hann, einhverjum áttundum ofar – og missir svo málið. Lýðurinn ærist.

Michael Block, 46 ára golfkennari, hefur ekki bara farið holu í höggi á PGA-meistaramótinu 2023, heldur stakk boltinn sér þráðbeint ofan í holuna. Hafði ekki fyrir því að skoppa á teignum og álpast svo ofan í, eins og algengara er. Rory McIlroy, einn fremsti kylfingur samtímans, er fyrstur til að óska honum til hamingju enda leika þeir félagar hringinn saman. „Beint ofan í,“ segir McIlroy og ljómar eins og sólin. „Hættu nú alveg! Hættu nú alveg!“ stynur Block, gáttaður. „Rory, fór hann beint ofan í?“ Heldur betur, lagsi. Þráðbeint.

Óvanur slíkri athygli

Áhorfendur flauta og blístra, klappa og stappa allan tímann, meðan Block gengur að holunni til að sækja þennan óvenjulega ratvísa bolta. Maður augnabliksins hefur ekki hugmynd um hvernig hann eigi að vera enda óvanur slíkri athygli. Kylfusveinninn gerir sitt besta til að tengja hann við veruleikann – sem eins og við þekkjum er oft lygilegri en nokkurt skáldað mál. „Hann trúir þessu ekki ennþá,“ segir þulurinn. Loks kemur Block á áfangastað og á satt best að segja í meira basli með að taka boltann upp úr holunni en að senda hann þangað. Svipurinn ber frekar merki um vantrú en stolt. Hann á einfaldlega ekki orð. „Michael Block, af öllum mönnum, er ábyrgur fyrir mestu fagnaðarlátunum á þessu móti,“ segir þulurinn. Block lagar derhúfuna. Eins og til að tryggja að þetta sé ekki bara draumur.

Block sækir boltann eftir höggið góða.
Block sækir boltann eftir höggið góða. AFP/Andrew Redington


„Öskubuska með kylfu,“ sagði vefmiðillinn Golf.com. Það var ekki bara hola í höggi, Block var líka sá eini sem ekki er fullgildur atvinnumaður til að komast gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi á mótinu. Í fyrsta skipti í fimm tilraunum. Hann lauk keppni í 15. sæti ásamt öðrum, sem er frábær árangur, og vann sér inn rúmar 40 milljónir króna, sem er fjórum sinnum hærri upphæð en hann hafði mest nælt sér í áður. Það sem meira er, Block kemst beint inn á PGA-meistaramótið að ári og er þegar farinn að fá boð um að taka þátt í öðrum mótum.

Höfum beðið eftir þessu

Block er svo sem ýmsu vanur úr starfi sínu sem golfkennari í Arroyo Trabuco-klúbbnum í Mission Viejo, Kaliforníu. „Maður þarf að eiga við 600 ólíka persónuleika, skilurðu? Lögfræðingur kennir manni hvernig rækta á grasið og endurskoðandi segir manni að borgarinn sé ekki rétt eldaður. Maður lærir að fást við þetta og allt undir sólinni,“ hefur Golf.com eftir Block.

Það er einmitt þetta viðhorf sem heillaði áhorfendur, bæði á vellinum og heima í stofu. Michael Block er þessi blátt áfram týpa. „Við höfum beðið eftir þessu,“ sagði náinn vinur hans, Lyon Lazare, sem flaug þvert yfir landið til að fylgjast með Block á tveimur seinni hringjunum. „Golfíþróttin hefur verið að bíða eftir einhverju svona. Ég meina, hann er maður fólksins. Sjálfur er ég enn að átta mig á þessu. Það voru miklar tilfinningar í spilinu, að sjá hann  – ég meina, ég hef aldrei séð hann gráta áður. Ekki konan hans heldur. Hann hefur haft þetta í sér öll þessi ár. Hann kann þetta. Og sýndi það loksins í þessari viku, ekki bara okkur, heldur öllum heiminum. Þetta er galið.“

Nánar er fjallað um Michael Block í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert