Lögðu frönsku sjóliðana að velli

Þó baráttan hafi verið hörð segir Birnir allan ágreining haldast …
Þó baráttan hafi verið hörð segir Birnir allan ágreining haldast á vellinum þar sem liðsmenn Rugbýfélags Reykjavíkur bjóði andstæðingum sínum iðulega í kvöldverð eftir leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rugbyfélag Reykjavíkur vann góðan 7:0 sigur gegn liði af franska herskipinu Chevalier Paul. Birnir Orri Pétursson, forseti Rugbyfélags Íslands, segir að um hörkuleik hafi verið að ræða.

Leikurinn fór fram í Skessunni í gærkvöldi en boðið var til kvöldverðar að leik loknum í húsakynnum Alliance Francaise.

Birnir segir þetta leik herramanna og því sé ágreiningur ávallt skilinn eftir á vellinum.

Birnir segir rugby vera leik herramanna.
Birnir segir rugby vera leik herramanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opið boð í sendiráðum um æfingaleiki

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rugbýfélag Reykjavíkur keppir við lið af herskipum en þeir hafa keppt við bæði kanadíska og breska hermenn. Herskipum er gert viðvart um opið boð félagsins í gegnum sendiráð ríkjanna á Íslandi.

Birnir segir flest herskip vera með lið, þó þau lið spili stundum fleiri íþróttir en ruðning, en íþróttin nýtur gífurlegra vinsælda í Frakklandi og þeim ríkjum sem hafa tilheyrt breska konungsveldinu.

Hermenn Chevalier Paul spiluðu í sérmerktum, bláum, treyjum.
Hermenn Chevalier Paul spiluðu í sérmerktum, bláum, treyjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Með yfirhöndina gegn hermönnunum

Að sögn Birnis hefur reykvíska liðinu gengið vel gegn þessum herskipaliðum sem megi meðal annars rekja til betra skipulags og samhæfingar liðsins.

„Við æfum saman reglulega. Þó þeir séu kannski með fleiri leikmenn í betra formi og með meiri reynslu,“ segir Birnir og bætir því við að Rugbyfélags Íslands noti oft leikina til að gefa ungum og óreyndum leikmönnum séns.

Birnir segir íþróttina vaxandi á Íslandi eftir lægð á tímum heimsfaraldurs. Félagsmenn sinni kynningarstarfi á öllum skólastigum til að kynna íþróttina.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert