Sjö Íslandsmeistarar afþakka sæti í landsliðinu

KA er Íslandsmeistari kvenna í blaki.
KA er Íslandsmeistari kvenna í blaki. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sjö leikmenn KA, Íslandsmeistara kvenna í blaki, gáfu ekki kost á sér í landsliðið fyrir Smáþjóðamótið í Lúxemborg vegna kostnaðar sem fylgir því að keppa fyrir Íslands hönd.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu leikmanna liðsins á heimasíðu félagsins, en þar er greint frá að hver og einn leikmaður þurfi að greiða 120.000 krónur fyrir ferðina á mótið og svo leggst töluverður aukakostnaður fyrir leikmenn af landsbyggðinni.

Kostaði hátt í hálfa milljón að taka þátt í síðasta verkefni og nú er kostnaðurinn einfaldlega orðinn of mikill til að keppa fyrir Íslands hönd. 

Yfirlýsing leikmanna KA:

Töluverð umræða hefur skapast þegar vakin var athygli á því að enginn leikmaður úr kvenna liði KA væri í landsliðshóp fyrir komandi verkefni landsliðsins. Fyrst og fremst viljum við koma því á fram færi að það var okkar ákvörðun að gefa ekki kost á okkur í þetta verkefni eftir að hafa fengið boð um það.

Okkur þykir þó mikilvægt að það komi fram að okkur þykir miður að þurfa afþakka boð eins og þetta þar sem mikil forréttindi eru að fá að spila fyrir íslandshönd og myndum við óska þess að aðstæður okkar væru öðruvísi.

Þó nokkrir leikmenn úr liði KA fengu boð og gefur það því að skilja að aðstæður okkar eru mismunandi og ástæður þess að við ákváðum að gefa ekki kost á okkur því misjafnar. Hinsvegar var megin ástæða okkar allra sú hve hár kostnaður fylgir því að ákveða að þiggja boð um að spila með landsliðinu. Ferðin sjálf í verkefnið kostar hvern leikmann 120.000 kr sem eitt og sér er hár kostnaður fyrir að spila fyrir Íslandshönd á móti sem fer fram yfir eina helgi. Til viðbótar við þennan kostnað leggst mikill auka kostnaður fyrir þá leikmenn sem búa á landsbyggðinni.

Allur undirbúningur fyrir verkefnið fer fram á höfuðborgarsvæðinu sem gerir það að verkum að leikmenn sem búa fyrir utan það þurfa að flytja sig þangað meðan undirbúningur fer fram með tilheyrandi kostnaði. Leikmenn af landsbyggðinni þurfa því að leggja til viðbótar við 120.000 kr kostnað vegna ferðalaga til og frá höfuðborgarsvæðisins, gistingu, uppihalds og ekki síður vinnutap, þar sem leikmenn af landsbyggðinni þurfa að taka sér frí í vinnu til að geta sótt æfingarnar á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu tilfelli hefði það verið hátt í 2 vikna frí frá vinnu vegna æfinga. Þegar allt þetta er tekið með inn í reikninginn er upphæðin sem hver leikmaður af landsbyggðinni þarf að greiða fyrir landsliðsverkefni eins og þetta orðin frekar há.

Seinasta landsliðsverkefni tók mikinn toll af þeim leikmönnum sem tóku þátt í því en úr hópi KA tóku þrír leikmenn þátt. Það verkefni var töluvert umfangsmeira þar sem verkefnið sjálft stóð yfir í þrjár vikur og undirbúningstímabilið stóð yfir í fjórar vikur. Verkefnið sjálft kostaði hvern leikmann 450.000 kr sem reynt var síðan að koma til móts við með hinum ýmsu fjáröflunum sem leikmenn stóðu sjálfir fyrir. Til viðbótar við þennan kostnað má síðan bæta við þeim kostnaði sem talin var upp hér ofar: ferðakostnaður til og frá höfuðborgarsvæðinu, gisting, uppihald og vinnutap í meira en tvo mánuði. Til viðbótar má nefna að þessir mánuðir í vinnu eru oft dýrmæt tekjuöflun fyrir námsmenn sem margir af þessum leikmönnum eru.

Megin ástæða þess að við gáfum ekki kost á okkur í þetta verkefni var þessi gífurlegi kostnaður. Undanfarin ár hefur ekkert verið komið á móts við þá leikmenn sem koma af landsbyggðinni og þykir okkur það miður. Það myndi muna töluverðu fyrir leikmenn af landsbyggðinni, sem oft eru stór hluti af leikmannahópi landsliðanna í blaki, ef t.d. hluti af undirbúningstímabilinu færi fram á landsbyggðinni, það myndi minnka tekjutap leikmannanna að einhverju leiti.

Einu sinni á undanförnum árum voru æfingar færðar út á land og var þá komið vel á móts við alla leikmenn í gistingu og fæði, þar sem skipuleggjendur æfingarhelgarinnar skipulögðu gistingu og fæði fyrir alla leikmenn á meðan helginni stóð til að kostnaður yrði að lágmarki. Út á það erum við alls ekki að setja heldur óskum við eftir því að það sé einnig staðan þegar leikmenn utan að landi þurfa að koma á höfuðborgarsvæðið.

Með þessum skrifum vonumst við til þess að hægt verði að vinna þetta stóra verkefni, að minnka kostnað allra leikmanna, saman og finna lausn á því. Við óskum stelpunum góðs gengis um helgina og hlökkum til þess að fylgjast með þeim næstu daga.

Leikmenn kvennaliðs KA í blaki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert