„Þetta verður alveg brekka“

Viðtalsbeiðnum og hamingjuóskum hefur ringt yfir Stefán sem er þekktasti …
Viðtalsbeiðnum og hamingjuóskum hefur ringt yfir Stefán sem er þekktasti stuðningsmaður Luton á Íslandi þó hann segist alls ekki vera sá eini. Samsett mynd

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og stuðningsmaður enska knattspyrnufélagsins Luton Town F.C., telur liðið ekki líklegt til afreka á næsta tímabili þegar það mun leika í efstu deild á ný eftir rúmlega þrjátíu ár í neðri deildum. Stefán og sonur hans fylgdust með liðinu tryggja sér úrvalsdeildarsætið á Wembley-leikvanginum í London í gær.

„Eftirá að hyggja hefði kannski verið gaman að hinkra lengur,“ segir Stefán sem flaug heim frá Luton í snemma í morgun. Þar var að hans sögn lítill svefnfriður eftir að úrslitin lágu fyrir,  bílflautur þandar langt fram á nótt og veisluhöld á hverju horni.

Fylgst með liðinu í fjörtíu ár

Stefán hefur stutt liðið í rétt liðlega fjörtíu ár og því séð þá spila við marga misgóða andstæðinga. Hann segir að botninum hafi verið náð eftir tímabilið 2008-2009 þegar liðið féll niður í fimmtu deild vegna fjármálamisferlis og slæmra ákvarðana eigenda.

„Menn fóru niður í utandeildina og það tók þá fimm ár að koma sér þaðan upp. En þarna kom inn nýr eigendahópur sem eru stuðningsmenn, litlir bakhjarlar heimamanna sem hafa snúið þessu svona rosalega við.”

Þessi sami hópur á liðið enn þann dag í dag sem er óvenjulegur eignarhaldsstrúktúr og mun stinga enn meira í stúf þegar í úrvalsdeildina er komið.

„Meira að segja í Championship-deildinni er Luton-liðið með einna lægstu veltuna. Það eru lið í þriðju deildinni með mun hærra launafjármagn. Það heyrir til undantekninga að leikmenn séu keyptir, þetta gengur allt gengur út á að finna menn með lausan samninga annarsstaðar og finna óslípaða demanta sem aðrir höfðu ekki tekið eftir.“

Fjörtíuþúsund stuðningsmenn Luton Town fögnuðu sigrinum með enska varnarjaxlinum Dan …
Fjörtíuþúsund stuðningsmenn Luton Town fögnuðu sigrinum með enska varnarjaxlinum Dan Potts þegar úrslitin lágu fyrir eftir vítakeppni. AFP

Engar áhyggjur af leikmannaflótta

Stefán segist hafa litlar áhyggjur af því að stærri lið reyni að lokka bestu leikmenn Luton í sínar raðir. Þeir séu einfaldlega ekki nógu góðir.

„Það eru mjög fáir leikmenn í okkar liði sem freisti úrvalsdeildarliða og ég held að leikmennirnir líti svo á að þetta sé þeirra stóra tækifæri, þeirra draumur. Fyrir mörgum þeirra verður þetta toppurinn á þeirra ferli. Þarna eru menn sem hafa farið í gegnum deildirnar með okkur.

Frægasta dæmið er lurkurinn á miðjunni, Pelly Ruddock Mpanzu, sem lék með okkur í utandeildinni. Ef hann leikur með okkur í úrvalsdeildinni á næsta ári, sem ég ætla nú rétt að vona, þá mun hann hafa leikið með sama liði í fimm deildum. Sem ég held að hljóti að vera einhverskonar heimsmet“.

Fénu verði varið í nýjan leikvang

Stefán segir stuðningsmenn liðsins marga gera ráð fyrir því að liðið fari rakleiðis aftur niður í Championship-deildina en muni þá hafa safnað í digra sjóði sem feli í sér tækifæri til þess að ráðast í mikilvægar framkvæmdir eins og að byggja nýjan völl en sá gamli er kominn á tíma.

„Völlurinn tekur ekki nema tíuþúsund manns sem þykir nú ekki mikið í þessum bransa og hann hangir saman á málningunni. Hann er alveg ofboðslega lúinn og lélegur,“ segir Stefán og telur að vegna þess verði erfitt að nálgast miða á heimaleiki Luton. Hann muni þess vegna fremur freista þess að fara á leiki liðsins á útivelli, þar sem sætaframboðið verður líklega meira.

Kenilworth Road er heimavöllur Luton Town.
Kenilworth Road er heimavöllur Luton Town. Ljósmynd/Luton Town

Væntingum stillt í hóf

Stefán segir Luton ágætis kost fyrir þá hlutlausu til að halda með, enda aðgengi að vellinum mjög gott. Flug til borgarinnar er afar ódýrt og gisting á viðráðanlegu verði í borginni.

Hann hlakkar til að fylgjast með þeim máta sig gegn stóru liðunum á komandi tímabili en viðurkennir að þetta verði líklega brekka fyrir sína menn sem hann grunar að muni keyra á óbreyttu liði.

„Skellirnir verða ljótir og þeir munu alveg koma. En ég held að við getum alveg sett fínu liðin í vandræði með því að spila þessa háu og miklu pressu.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert