Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic hefur verið gagnrýndur fyrir skilaboð sem hann ritaði á upptökuvél á Opna franska meistaramótinu á dögunum.
Djokovic skrifaði: „Kósovó er hjarta Serbíu. Látið af ofbeldinu.“
Vísaði hann þar til átaka í Kósovó undanfarið í kjölfar þess að bæjarstjórar sem eru af albönsku bergi brotnir voru kosnir til setu í norðurhluta landsins. Lögreglu og hermönnum frá NATO hefur lent saman við serbneska mótmælendur undanfarna daga.
Kósovó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 en Serbía hefur aldrei viðurkennt sjálfstæði þjóðarinnar.
Amélie Oudéa-Castéra, íþróttaráðherra Frakklands og fyrrverandi atvinnukona í tennis, segir skilaboð Djokovic hafa verið óviðeigandi.
„Það verður að gæta hlutleysis á leikvellinum. Þegar þú deilir skilaboðum til varnar mannréttindum, skilaboðum sem sameinar fólk þegar kemur að alþjóðlegum gildum, er íþróttafólki frjálst að tjá þau.
En í þessu tilfelli er um að ræða skilaboð sem markast af aktívisma, sem eru mjög pólitísk. Það ætti ekki að taka þátt í því, sérstaklega miðað við núverandi aðstæður, og þetta ætti ekki að gerast aftur,“ sagði hún í samtali við sjónvarpsstöðina France 2.