Frjálsíþróttakonan Irma Gunnarsdóttir úr FH sló um liðna helgi 26 ára gamalt Íslandsmet í þrístökki utanhúss þegar hún stökk 13,40 metra á Norðurlandamótinu í Kaupmannahöfn. Bætti hún met Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur úr HSK, 13,18 metra, frá árinu 1997 um 22 sentimetra.
„Tilfinningin er mjög góð. Ég er mjög sátt við þetta. Ég er búin að æfa mjög vel og var búin að stökkva lengra innanhúss, þannig að ég vissi alveg að ég ætti þetta inni,“ sagði Irma í samtali við Morgunblaðið.
Þrátt fyrir þennan frábæra árangur hafnaði hún í fjórða sæti í greininni á NM, enda keppinautar Irmu sömuleiðis sterkir.
„Þetta var mjög sterkt mót. Það munaði ekki miklu á mér og þeirri sem lenti í þriðja sæti. Það var smá svekkjandi að missa af þriðja sætinu en maður getur ekki verið annað en sáttur við þetta. Þær voru líka að stökkva mjög vel og bæta sig,“ sagði hún.
Mótið um síðustu helgi var fyrsta Norðurlandamótið sem er haldið utanhúss í frjálsum íþróttum. Irmu þótti hafa tekist vel til.
„Þetta var mjög skemmtilegt mót og það myndaðist góð stemning milli allra liðanna, þar sem allir voru að hvetja hver annan áfram. Ég upplifði þetta mjög vel þarna úti, það var góð stemning.“
Viðtalið við Irmu má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.