Pablo Punyed, miðjumaður Víkings, var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta í maímánuði samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni.
Pablo fékk sjö M í sex leikjum Víkings í maí og var eini leikmaður deildarinnar sem fékk M í öllum leikjum síns liðs í mánuðinum. Hann fékk fimm sinnum eitt M og einu sinni tvö M.
Víkingar unnu fimm af þessum sex leikjum en þeir töpuðu sínum fyrstu stigum í síðasta leiknum, gegn Val á mánudagskvöldið.
Næstir á eftir Pablo voru Gísli Eyjólfsson, miðjumaður Breiðabliks, og Birnir Snær Ingason, kantmaður Víkings, en þeir fengu báðir sex M í sex leikjum í maí.
Alls fengu 20 leikmenn í deildinni fjögur M eða fleiri í maímánuði en þá má sjá alla í úrvalsliði mánaðarins í Morgunblaðinu í dag ýmist í byrjunarliðinu eða á varamannabekknum.
Ólafur Íshólm Ólafsson, markvörður Fram, er eini leikmaðurinn í liðinu sem fékk þrjú M samanlagt en hann var eini markvörðurinn í deildinni sem fékk fleiri en tvö M í maí.
Þeir Gísli og Pablo eru efstir í M-gjöfinni í heild sinni en þeir eru báðir með samtals 10 M eftir tíu leiki með Breiðabliki og Víkingi það sem af er tímabilinu.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag ásamt úrvalsliði maímánaðar í Bestu deild karla og viðtali við Pablo Punyed.