„Þetta hefur verið aðeins öðruvísi á þessu tímabili samanborið við öll hin því ég er að spila í sexunni, fyrir framan vörnina,“ sagði Pablo Punyed, miðjumaður Víkings úr Reykjavík og leikmaður maímánaðar hjá Morgunblaðinu.
„Liðið spilar vel og allir sýna góða frammistöðu. Við gefum ekki mörg færi á okkur og út frá því getum við alltaf stjórnað og sótt. Þá get ég spilað minn leik. Það er gott að hafa náð í þrjú stig í flestum leikjum hingað til, það er auðvitað aðalatriðið,“ bætti Pablo við.
Víkingur er á toppi deildarinnar með 27 stig eftir að hafa unnið fyrstu níu leiki sína og tapað þeim tíunda, 2:3, gegn Val.
„Þegar við horfum á tölfræðina úr leiknum við Val vorum við meira með boltann, fengum fleiri skotfæri og með hærra xG [möguleg mörk] en þeir. En þrátt fyrir það vinnur maður ekki alltaf. Man. City hefur líka tapað leikjum, þannig er fótboltinn. Það væri ekki gaman ef eitt lið myndi vinna alla leiki.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í fyrramálið.