Ætla að verða betri en Gunnar Nelson

Stefán Fannar Hallgrímsson íhugull.
Stefán Fannar Hallgrímsson íhugull. Ljósmynd/Ásgeir Marteinsson

Stefán Fannar Hallgrímsson, 18 ára bráðefnilegur glímukappi hjá Mjölni, setur markið hátt og stefnir að því að verða besti glímumaður Íslandssögunnar.

Stefán Fannar hafði reynt fyrir sér í hinum ýmsu íþróttum áður en hann fann fjölina í brasilísku jiu-jitsu.

„Ég byrjaði ungur í fimleikum, flakkaði á milli allra íþrótta en þó mest í körfubolta þar til ég fann MMA í Mjölni, sem þróaðist svo í BJJ þar sem mér fannst það skemmtilegra.

Þetta var í Covid þar sem ég hafði ekkert að gera og sá fullt af myndböndum af Conor McGregor og Gunna [Nelson] og þar kviknaði áhuginn.

Stuttu eftir enn eitt samkomubannið byrjaði ég í unglingastarfinu í Mjölni og hef ekki stoppað síðan þá,“ sagði Stefán Fannar í viðtali á vef Mjölnis.

Glíman við Helga skemmtilegust

Hann mætir liðsfélaga sínum úr Mjölni, Helga Frey Ólafssyni, í úrslitum í -88 kg flokki á úrslitakvöldi Unbroken-deildarinnar í Tjarnarbíói á laugardag, en um er að ræða fyrstu íslensku deildakeppnina í uppgjafarglímu.

Stefán Fannar í kröppum dansi.
Stefán Fannar í kröppum dansi. Ljósmynd/Ásgeir Marteinsson

Í deildinni vann Stefán Fannar allar glímur sínar með uppgjafartaki, nema þá við Helga Frey.

„Mér fannst bara ganga ágætlega í deildinni. Ég er ekki ósáttur, sumir hlutir hefðu getað gengið betur en ég er kominn í úrslit og það skiptir höfuð máli.

Af öllum glímunum mínum fannst mér glíman við Helga skemmtilegust og mér ganga best í henni þó það hafi verið eina glíman sem ég náði ekki að vinna.

Hinar glímurnar sem ég vann voru kannski ekki eins tæknilega góðar hjá mér, ég náði bara lásunum og kláraði en glíman við Helga var svo skemmtileg,“ sagði hann.

Einn af mínum uppáhalds

Stefán Fannar er spenntur fyrir því að mæta Helga Frey aftur.

„Það er geðveikt! Ég og Helgi höfum glímt oft, en bara einu sinni í keppni og þá endaði glíman með jafntefli.

Helgi er einn af mínum uppáhalds æfingafélögum og andstæðingum, þannig að það verður gaman að fá að keppa við hann aftur. Það verður gaman að gera þetta í Tjarnarbíói þar sem verður alvöru sýning.“

Í gólfinu.
Í gólfinu. Ljósmynd/Ásgeir Marteinsson

Besti glímumaður Íslandssögunnar

Spurður hvert hann stefni í glímunni í framtíðinni sagði Stefán Fannar:

„Ég er bara búinn að vera partur af glímunni í mjög stuttan tíma, en finnst þetta alltaf vera að stækka hvert einasta ár. Fólk er farið að taka betur eftir þessu og sjá hvað það getur grætt á að vera að glíma.

Markmiðið mitt er bara að verða besti glímumaður Íslandssögunnar, betri en Kristján Helgi [Hafliðason], Gunnar Nelson og bara allir. Ég ætla mér að vinna ADCC, sem er svona sterkasta uppgjafarglímumót í heimi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert