Tom Brady, sigursælasti leikmaður í sögu bandarísku NFL-deildarinnar í ruðningi, hefur enn á ný ítrekað að hann sé hættur.
Í febrúar síðastliðnum tilkynnti hinn 45 ára gamli Brady að ferlinum væri lokið fyrir fullt og allt.
Þrátt fyrir það hafa orðrómar um að hann hygðist hætta við að hætta í annað sinn gert vart við sig, en það gerði hann á síðasta ári.
Eftir að hafa tilkynnt að hann væri hættur í febrúar á síðasta ári dró hann ákvörðun sína til baka rúmum mánuði síðar og tók eitt tímabil til viðbótar með Tampa Bay Buccaneers.
Í samtali við Sports Illustrated tók Brady hins vegar af allan vafa og sagði það síður en svo standa til að hætta við að hætta.
„Ég er alveg viss um það að ég muni ekki spila aftur. Ég hef reynt að koma því skýrt á framfæri og þykir það leiðinlegt að þurfa að halda áfram að tilkynna það því ég hef þegar sagt fólki það margoft,“ sagði hann.