Jim Hines er látinn

Jim Hines, þriðji frá vinstri, á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið …
Jim Hines, þriðji frá vinstri, á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968. AFP

Jim Hines frá Bandaríkjunum, fyrsti maðurinn sem hljóp 100 metra á betri tíma en 10 sekúndum sléttum, er látinn, 76 ára að aldri.

Hines sigraði í  greininni á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968 á 9,95 sekúndum og það þóttu einhver mestu tíðindi í frjálsíþróttasögunni á þeim tíma. 

Hines fæddist í Dumas í Arkansas árið 1946 en ólst upp í Oakland í Kaliforníu og var einn af tólf systkinum. 

Jim Hines á efsta þrepi verðlaunapallsins í Mexíkó árið 1968.
Jim Hines á efsta þrepi verðlaunapallsins í Mexíkó árið 1968. AFP

Hann lagði stund á hornabolta á sínum yngri árum en frjálsíþróttaþjálfarinn Jim Coleman sá til hans og fékk hann til að æfa spretthlaup. Hines hljóp 100 metrana á 10,03 sekúndum á bandaríska meistaramótinu 1968 og vann sér þar með keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Mexíkó þar sem hann færði þjóð sinni gullverðlaunin með tímamótasigri í 100 metrunum.

Hines hreppti tvenn gullverðlaun á leikunum í Mexíkó en þar var hann einnig í sigursveit Bandaríkjanna í 4x100 metra boðhlaupi.

Jim Hines, lengst til hægri á æfingu fyrir Ólympíuleikana í …
Jim Hines, lengst til hægri á æfingu fyrir Ólympíuleikana í Mexíkó. AFP

Eftir þetta reyndi Hines fyrir sér í amerískum fótbolta, var í leikmannahópi Miami Dolphins 1968-1969 og spilaði einn leik með Kansas City Chiefs ári síðar, en þótti ekki hafa hæfileika til að ná langt í þeirri íþrótt þrátt fyrir hraðann.

Heimsmet Hines stóð í 15 ár, eða þar til Calvin Smith hljóp 100 metrana á 9,93 sekúndum árið 1983.

Hann var lengst af búsettur í Houston í Texas og vann þar lengi að hjálparstarfi fyrir ungmenni og starfaði auk þess á olíuborpalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert