Frjálsíþróttakonan Irma Gunnarsdóttir hafnaði í öðru sæti í langstökki á Copenhagen Athletic Games-mótinu í Kaupmannahöfn í Danmörku í dag.
Irma stökk lengst 6,35 metra og var aðeins fimm sentímetrum frá sínum besta árangri. Maja Åskag frá Svíþjóð var sú eina sem sá við henni og stökk 6,70 metra og bætti sinn besta árangur. Birna Kristín Kristjánsdóttir varð sjötta með stökk upp á 5,94 metra.
Kolbeinn Höður Gunnarsson tryggði sér sæti í úrslitum í 100 metra hlaupi með því að hlaupa á 10,45 sekúndum. Tíminn er undir Íslandsmetinu sem hann og Ari Bragi Kárason deila, en það skráist ekki sem Íslandsmet þar sem meðvindur var aðeins of mikill.
Skráð Íslandsmet Kolbeins og Ara er 10,51 sekúnda og virðist aðeins tímaspursmál hvenær Kolbeinn slái Íslandsmetið í löglegum meðvind. Hann hleypur í úrslitum klukkan 18.13.
Kolbeinn og Irma keppa bæði fyrir FH.