Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR gerði sér lítið fyrir í kvöld og sló tæplega mánaðargamalt Íslandsmet sitt í sleggjukasti í Austin í Texas.
Hún keppti þar á meistaramóti bandarísku háskólanna, fyrir Texas State-háskólann, og þeytti sleggjunni 66,98 metra.
Fyrra metið sem hún setti 11. maí á svæðismeistaramóti háskólanna í Myrtle Beach í Suður-Karólínu var 65,53 metrar.
Kastið skilaði Elísabetu í sjöunda sæti af 24 keppendum á mótinu en hún var aðeins þremur sentimetrum frá því að ná fimmta sæti. Sigurvegarinn, Stephanie Ratcliffe frá Harvard-háskóla, kastaði 73,63 metra.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir úr ÍR keppti einnig í sleggjukastinu, fyrir VCU-háskólann frá Virginíu, og varð í 15. sæti með 63,62 metra.
Þriðji Íslendingurinn sem keppir á mótinu er Erna Sóley Gunnarsdóttir, Íslandsmethafi í kúluvarpi, en hún keppir í nótt klukkan 2.30 að íslenskum tíma.