Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarpari úr ÍR, var 15 sentimetrum frá Íslandsmeti sínu í kúluvarpi utanhúss þegar hún keppti á meistaramóti bandarísku háskólanna í Austin í Texas í nótt.
Erna kastaði 17,24 metra og endaði í 11. sæti af þeim 24 sem kepptu til úrslita í greininni. Íslandsmet hennar utanhúss frá því í apríl er 17,39 metrar en í vetur kastaði hún 17,92 metra innanhúss sem er Íslandsmet á þeim vettvangi.
Þar með hafa íslensku keppendurnir þrír sem komust á lokamótið lokið keppni en Elísabet Rut Rúnarsdóttir setti Íslandsmet í sleggjukasti eins og mbl.is sagði frá í gærkvöldi.