Íhugaði sjálfsvíg eftir tap

Nick Kyrgios.
Nick Kyrgios. AFP/Glyn Kirk

Ástralski tennisleikarinn Nick Kyrgios kveðst hafa íhugað sjálfsvíg eftir að hafa tapað fyrir Spánverjanum Rafael Nadal í annarri umferð Wimbledon-mótsins árið 2019.

Í heimildaþáttunum Break Point, þar sem Kyrgios er í forgrunni í nýjasta þætti, greinir frá hann frá því að hann hafi dvalið á geðsjúkrahúsi eftir tapið.

„Ég var í alvöru að íhuga það hvort ég vildi fremja sjálfsvíg. Ég tapaði á Wimbledon-mótinu. Ég vaknaði og pabbi minn sat á rúmstokknum og hágrét.

Það opnaði augun mín endanlega. Ég hugsaði mér að ég gæti ekki gert þetta áfram. Ég endaði á geðdeild á sjúkrahúsi í Lundúnum til þess að komast til botns í vandamálum mínum,“ sagði Kyrgios, að því er ástralska dagblaðið The Australian greinir frá.

Í febrúar síðastliðnum greindi hann frá baráttu sinni við geðræn vandamál á Instagram-aðgangi sínum, þar sem Kyrgios kvaðst nú vera á mun betri stað.

Break Point þættina má sjá á Netflix-streymisveitunni og verður þátturinn með Kyrgios frumsýndur eftir slétta viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert