Fyrsta íslenska konan sem snarar 100 kílóum

Eygló Fanndal Sturludóttir.
Eygló Fanndal Sturludóttir. Ljósmynd/LSÍ

Lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir varð í gær fyrst íslenskra kvenna til þess að snara 100 kg á móti er hún tók þátt á IWF Grand Prix 1-mótinu í ólympískum lyftingum í Havana á Kúbu.

Hún náði 120 kg í jafnhendingu og samanlögðum 220 kg, sem einnig er Íslandsmet í samanlögðu.

Þessi árangur táknar að Eygló er orðin stigahæsta lyftingakona Íslands frá upphafi.

Alls voru 26 keppendur í -71 kg flokki á mótinu, 14 í A riðli og 12 í B riðli.
Eygló keppti í B riðli. Þar átti hún bestan árangur keppenda í snörun, 100 kg, og annan bestan árangur í jafnhendingu, 120 kg, á eftir Marcial Matias sem lyfti 124 kg.

Eftir að keppni í báðum riðlum var lokið varð það ljóst að 7. sætið var Eyglóar í samanlögðu en auk þess hafnaði hún í 6. sæti í snörun og 9. sæti í jafnhendingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert