Rifti samningnum til að fara á Ástareyjuna

Scott van der Sluis heldur á vit nýrra ævintýra.
Scott van der Sluis heldur á vit nýrra ævintýra. Ljósmynd/Shelbourne

Velski markvörðurinn Scott van der Sluis hefur fengið samningi sínum hjá írska úrvalsdeildarfélaginu Shelbourne rift vegna þess að hann hyggst gera hlé á knattspyrnuferlinum til þess að taka þátt í raunveruleikaþættinum vinsæla, Love Island.

„Ég var í áfalli og sorgmæddur að heyra af því að Scott hefði kosið villu á Majorka sem er yfirfull af einstæðum, fallegum konum fram yfir mig, starfsfólkið og leikmennina,“ sagði Damien Duff, knattspyrnustjóri Shelbourne, í samtali við heimasíðu félagsins.

„Að öllu gamni slepptu þakka ég Scott fyrir hans framlag til Shelbourne og við óskum honum alls hins besta í framtíðinni, hvað svo sem hún ber í skauti sér,“ bætti hann við.

Van der Sluis þakkaði af sama tilefni kærlega fyrir sig og kvaðst myndu styðja dyggilega við bakið á Shelbourne þegar hann yfirgæfi villuna á Majorka.

Í leiknu sjónvarpsþáttaröðinni Ted Lasso ákvað ein aðalsöguhetjan, Jamie Tartt, að yfirgefa Manchester City til þess að taka þátt í Love Island og spáðu handritshöfundar þáttanna því að heita má óbeint fyrir gjörðum van der Sluis.

Á sínum yngri árum lék markvörðurinn bæði með Manchester United og Liverpool og á að baki leiki fyrir yngri landslið Wales.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert