Fyrsta umferð Íslandsmótsins í kappakstri mótorhjóla byrjaði með látum er tvær lotur voru keyrðar á kappakstursbraut Kvartmíluklúbbsins á sunnudag. Níu keppendur voru skráðir, sem er svipað og í umferðum síðasta árs, og voru efstu keppendur að ná góðum tíma strax í fyrstu umferð.
Baráttan um efstu sætin var hörð í fyrri lotunni en brautarmethafinn Árni Þór Jónasson stóð uppi sem sigurvegari eftir harða baráttu við Stefán Orlandi og Ármann Guðmundsson, sem er Íslandsmeistarinn frá því í fyrra.
Ármann missteig sig í baráttunni og féll í beygju númer eitt í brautinni og var það að endingu Árni Þór sem skilaði sér fyrstur í mark, tryggði sér þannig fyrstu 25 stig dagsins og var hraðasti hringur Árna 1:25,111 mínútur. Stefán Orlandi varð annar og Jóhann Leví Jóhannsson þriðji.
Segja má að dramatíkin hafi haldið áfram í seinni lotu dagsins, en Árni Þór varð að játa sig sigraðan vegna tæknilegra örðugleika rétt fyrir ræsingu lotunnar. Þannig voru það átta keppendur sem ræstu seinni lotuna og voru það Stefán og Jóhann Leví sem börðust hart um fyrsta sætið.
Mjög góður tími náðist í lotunni, en það var Stefán sem var hraðastur og innsiglaði þannig sigur í fyrstu umferðinni. Jóhann Leví varð síðan annar og Ingólfur Snorrason þriðji. Eftir fyrstu umferð Íslandsmótsins er Stefán í fyrsta sæti með 45 stig, annar er Jóhann Leví með 36 stig og þriðji er Ingólfur með 29 stig.
Sumarið hefur byrjað með köldum og blautum aðstæðum í maí og fyrstu daga júní en veðrið lék þó við keppendur á sunnudag og hélst brautin þurr alla keppnina. Keppendur komu mjög sterkir út úr fyrstu umferð Íslandsmótsins en hröðustu tímar fyrri lotu voru eftirfarandi:
Stefán Orlandi á 1:25,111 mínútum, Árni Þór á 1:25,230 og Ármann Guðmundsson á 1:25,639.
Í seinni lotunni jókst hraðinn enn frekar og var það Stefán sem náði 1:24,798 mínútum, skömmu á eftir honum kom Jóhann Leví með 1:24,948 og hársbreidd á eftir hans tíma kom Ingólfur með 1:25,004.
Kvartmíluklúbburinn fékk á vordögum kærkomna heimsókn frá Englandi er Jeremy Hill, aðalþjálfari BEMSEE klúbbsins – elsta kappakstursklúbbs heims, kom og hélt námskeið fyrir keppendur í kappakstri hjá KK.
Hill hefur verið virkur keppandi í hátt í fjörutíu ár og hefur starfað með kempum á borð við Barry Sheen, Casey Stoner og Cal Crutchlow.
Þetta er í fyrsta sinn sem kennari á við Hill kemur til Íslands og heldur námskeið í mótorhjólakappakstri, en starfið hjá KK hefur vaxið jafnt og þétt undanfarið.