Íslenskt silfur á HM í klassískum lyftingum

Kristín Þórhallsdóttir endaði í öðru sæti í samanlögðum árangri á …
Kristín Þórhallsdóttir endaði í öðru sæti í samanlögðum árangri á HM í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Kristín Þórhallsdóttir endaði í 2. sæti í samanlögðum árangri á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum sem haldið er í St. Julians á Möltu þessa dagana.

Kristín, sem kosin var kraftlyftingakona ársins 2022 á Íslandi, keppir í -84 kg flokki. Fyrir mótið var Kristín skráð með annan besta árangurinn í þessum flokki og var hún talin líkleg til afreka.

Fyrsta grein dagsins var hnébeygja og endaði Kristín í 2. sæti eftir að hafa lyft upp 210 kg. Bekkpressa var önnu greinin og þar lenti Kristín í 3. sæti eftir að hafa lyft 125 kg. Þá lyfti Kristín upp 230 kg í réttstöðulyftu sem skilaði henni 4. sæti í greininni.

Samanlagt lyfti Kristín 565 kg sem tryggði henni 2. sætið. Bandaríska lyftingarkonan Amanda Lawrence varð Heimsmeistari eftir að hafa lyft 636,5 kg samanlagt og þá endaði hún efst í öllum einstaklingsgreinunum. Ziana Azariah frá Bretlandi endaði í 3. sæti með 557,5 kg samanlagt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert