Besti árangur Íslands frá upphafi

Arnar Davíð Jónsson náði bestum árangri íslensku keppendanna í Frakklandi.
Arnar Davíð Jónsson náði bestum árangri íslensku keppendanna í Frakklandi. Ljósmynd/kli.is

Íslenska karlalandsliðið í keilu hafnaði í 5. sæti í þrímenningi á Evrópumótinu í Wittelsheim í Frakklandi sem lauk á dögunum.

Þrímenningslið Íslands skipuðu þeir Arnar Davíð Jónsson, Jón Ingi Ragnarsson og Skúli Freyr Sigurðsson og er þetta besti árangur Íslands frá upphafi á stórmóti.

Skúli Freyr hafnaði svo í 16. sæti í einstaklingskeppninni og Arnar Davíð Jónsson í 18. sæti. Í tvímenningi höfnuðu þeir Arnar og Skúli í 22. sæti en Jón Ingi og Guðlaugur Valgeirsson höfnuðu í 25. sæti.

Arnar Davíð komst áfram í Masters-keppni mótsins en féll úr leik í 2. umferð eftir tap gegn Dananum Carsten Warming Hansen.

Með frammistöðunni í Frakklandi tryggði íslenska liðið sér einnig sæti á heimsmeistaramótinu í Kúveit sem fram fer dagana 3.-16. október. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert