Íslenska landsliðið í frjálsíþróttum er í hörkubaráttu um áframhaldandi sæti í 2. deild Evrópubikarkeppninnar en öðrum keppnisdegi af þremur er nú lokið í Slesíu í Póllandi.
Ísland er í 14. sæti af sextán þjóðum með 173 stig, á undan Lúxemborg með 125 stig og Moldóvu sem er með 120 stig.
Þrjár neðstu þjóðirnar falla en eftir ágætan endasprett í dag er Ísland örskammt á eftir Eistlandi sem er með 177 stig í tólfta sætinu og Serbíu sem er með 176 stig í þrettánda sætinu.
Íslandsmet féll í síðustu grein dagsins þegar boðhlaupssveit Íslands endaði í 10. sæti í 4x100 metra hlaupi á 40,27 sekúndum. Sveitin sló sex ára gamalt met sem var 40,40 sekúndur. Sveitina skipuðu Gylfi Ingvar Gylfason, Kristófer Þorgrímsson, Dagur Andri Einarsson og Kolbeinn Höður Gunnarsson.
Guðni Valur Guðnason náði í flest stig í dag þegar hann varð þriðji í kringlukasti karla með 63,44 metra en þriðja sætið gefur 14 stig.
Baldvin Þór Magnússon varð sjötti í 1.500 metra hlaupi karla á 3:43,38 mínútum. Íslandsmet hans, 3:40,36 mínútur, hefði nægt til sigurs í hlaupinu.
Ívar Kristinn Jasonarson varð sjötti í 400 metra grindahlaupi karla á 51,68 sekúndum sem er hans besti árangur.
Daníel Ingi Egilsson varð áttundi í langstökki karla, stökk 7,48 metra.
Aníta Hinriksdóttir varð áttunda í 800 metra hlaupi kvenna á 2:03,33 mínútum sem er hennar besti tími í ár.
Karen Sif Ársælsdóttir varð níunda í stangarstökki kvenna, stökk 3,45 metra.
Sveit Íslands í 4x100 metra boðhlaupi kvenna varð í níunda sæti á 46,69 sekúndum.
Irma Gunnarsdóttir varð tíunda í þrístökki kvenna, stökk 12,69 metra.
Ísak Óli Traustason varð fjórtándi í 110 metra grindahlaupi karla á 15,07 sekúndum.
Ingibjörg Sigurðardóttir varð fimmtánda í 400 metra grindahlaupi kvenna á 1:02,27 mínútu.
Birna Kristín Kristjánsdóttir varð sextánda í 100 metra grindahlaupi á 14,71 sekúndum.
Hilmar Örn Jónsson gerði öll köstin ógild í sleggjukasti karla og varð því sextándi og síðastur. Þar töpuðust mikilvæg stig því Íslandsmet hans í greininni, 77,10 metrar, hefði nægt til sigurs.