Ummæli mín ekki mörkuð af kynþáttafordómum

Stefanos Tsitsipas.
Stefanos Tsitsipas. AFP/Julien de Rosa

Gríski tennisleikarinn Stefanos Tsitsipas segir að ummæli sín um ástralska tenniskappann Nick Kyrgios, sem hafa á samfélagsmiðlum verið talin til marks um kynþáttafordóma, hafi verið mistúlkuð.

Í heimildaþáttunum Break Point, sem má sjá streymisveitunni Netflix, er fjallað um Kyrgios í nýjasta þættinum.

Eftir viðureign Tsitsipas og Kyrgios á Wimbledon-mótinu á síðasta ári, þar sem sá síðarnefndi bar sigur úr býtum, var Grikkinn ekki á eitt sáttur við framferði Ástralans.

Lýsti hann nálgun Kyrgios til tennis sem „ómenntaðri“ og að Ástralinn kæmi með „NBA-körfubolta viðhorf“ til íþróttarinnar.

„Það virðist sem óheppilegur misskilningur hafi gert vart við sig, sem er til þess fallinn að gefa afbakaða mynd af fyrirætlunum mínum.

Það hefur vakið athygli mína að sumir hafa mistúlkað ummæli mín um Kyrgios [...], þar sem gefið er í skyn að ég hafi sýnt kynþáttafordóma, þó þeir séu hvergi til staðar af minni hálfu,“ skrifaði Tsitsipas á Facebook-síðu sinni í morgun.

Nick Kyrgios.
Nick Kyrgios. AFP/Glyn Kirk

Kyrgios, sem á sjálfur föður af grískum ættum og móður frá Malasíu, hefur oft og tíðum vakið athygli fyrir að láta skapið hlaupa með sig í gönur á meðan keppni stendur.

Tsitsipas sagði það hins vegar af og frá að ummæli sín hafi haft eitthvað með hvaðan Kyrgios er ættaður að gera.

„Ég vil árétta að ég ber enga fordóma í brjósti á grundvelli bakgrunns, þjóðernis eða áhugamála. Mér þykir það gífurlega leitt ef orð mín voru mistúlkuð eða móðguðu einhvern, því það var síður en svo ætlun mín,“ skrifaði Grikkinn einnig.

Kyrgios hefur þegar brugðist við yfirlýsingu Tsitsipas og sagði einfaldlega að það væri allt í góðu á milli þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka