Kúluvarpari tók að sér grindahlaup (myndskeið)

Jolien Boumkwo er kúluvarpari en tók þó þátt í 100 …
Jolien Boumkwo er kúluvarpari en tók þó þátt í 100 metra grindahlaupi. AFP/Ozan Kose

Í Evrópubikarkeppninni í frjálsíþróttum, sem fer nú fram í Chorzów í Póllandi, skiptir hvert einasta stig máli.

Belgíska landsliðið, sem tekur þátt í 1. deild keppninnar, lenti í þeirri óheppilegu stöðu að báðir grindahlauparar liðsins, Anna Zagr og Hanne Claes, meiddust og gátu því ekki tekið þátt í úrslitum 100 metra grindahlaupi kvenna.

Því voru góð ráð dýr og ákvað Jolien Boumkwo að hlaupa í skarðið fyrir löndur sínar.

Sérgrein hinnar stóru og stæðilegu Boumkwo er kúluvarp og hafnaði hún því eins og við mátti búast í langsíðasta sæti í grindahlaupinu. Hafði Boumkwo áður hafnað í sjöunda sæti í kúluvarpi með því að kasta lengst 16,58 metra.

Belgía er sem stendur í neðsta sæti fyrir lokadaginn í 1. deild í dag og gæti því fallið niður í 2. deild.

Hins vegar er það svo að þátttaka telur til stiga og fékk Boumkwo því eitt stig fyrir hönd belgíska landsliðsins.

Hefði enginn tekið þátt hefði ekkert stig fengist og hefur hún því hvarvetna fengið hrós fyrir að taka það á sig að keppa í grein sem hún hefur aldrei keppt í áður.

Myndskeið af hlaupinu, sem Boumkwo og keppinautar hennar höfðu gaman að, má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka