Anníe Mist ætlar að rjúfa múra

Anníe Mist Þórisdóttir eignaðist dótturina Freyju sumarið 2020.
Anníe Mist Þórisdóttir eignaðist dótturina Freyju sumarið 2020. Ljósmynd/Instagram

Anníe Mist Þórisdóttir er á leið á sína tólftu heimsleika í CrossFit einstaklinga, sem gerir hana að einum reyndasta keppandanum í sögu íþróttarinnar.

Tvívegis hefur hin 33 ára gamla Anníe Mist orðið heimsmeistari í einstaklingskeppni leikanna, árin 2011 og 2012, og slær hvergi slöku við þrátt fyrir að vera talin komin á efri ár í íþróttinni og ferilinn verið ýmsum erfiðleikum háður.

„Ég er að reyna að rjúfa þann múr sem snýr að því að ferilinn eigi að klárast á einhverjum vissum tímapunkti,“ sagði Anníe Mist í samtali við opinbera síðu CrossFit eftir að hún tryggði sig inn á heimsleikana fyrr í sumar.

Hún tók fyrst þátt á heimsleikum CrossFit árið 2009, þá tvítug, og verður 34 ára á árinu.

Á ferlinum hefur Anníe Mist komið til baka ári eftir að hafa eignast barn, hún hefur snúið aftur eftir afar erfið meiðsli og skipti nýverið aftur yfir í einstaklingskeppni eftir að hafa tekið þátt í liðakeppni á heimsleikum CrossFit á síðasta ári.

„Við tökum sjálfar ákvörðun um hvenær við hættum keppni,“ bætti Anníe Mist við.

Fyrir heimsleikana í ár, sem hefjast í byrjun ágúst í Madison-borg í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum, er Anníe Mist með næstflest stig Evrópubúa fyrir einstaklingskeppni kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka