Ryan Mallett, fyrrverandi leikstjórnandi hjá New England Patriots, Houston Texans og Baltimore Ravens í bandarísku NFL-deildinni í ruðningi, er látinn, aðeins 35 ára að aldri.
Mallett drukknaði í gær er hann var í fríi með kærustu sinni í Flórída-ríki.
Hann lék í NFL-deildinni um sex ára skeið, frá 2011 til 2017, eftir að hafa verið valinn af New England í þriðju umferð nýliðavals deildarinnar árið 2011.
Þar var Mallett varaleikstjórnandi fyrir stórstjörnuna Tom Brady frá 2011 til 2013.
Þaðan lá leiðin til Houston, þar sem hann lék frá 2014 til 2015, og loks til Baltimore árið 2015, þar sem Mallett lék flesta leiki sína á ferlinum áður en hann lét staðar numið árið 2017.