Snýr Simone Biles aftur?

Simone Biles.
Simone Biles. AFP/Martin Bureau

Bandaríska fimleikastjarnan Simone Biles, ein fremsta fimleikakona sögunnar, gæti snúið aftur til keppni í byrjun ágúst þegar Classic-mótið fer fram í grennd við Chicago-borg í Bandaríkjunum.

Biles hefur ekki keppt síðan á Ólympíuleikunum í Tókýó í Japan fyrir tveimur árum.

Hún dró sig þá úr keppni í liðakeppninni á leikunum vegna andlegra erfiðleika, ákvað auk þess að draga sig úr keppni á fjórum áhöldum í einstaklingskeppni en sneri svo aftur í henni og vann til bronsverðlauna á jafnvægisslá.

Biles lét síðar hafa það eftir sér að það hafi verið mistök að taka þátt á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Hún er skráð til keppni á Classic-mótinu, sem er nokkurs konar undanfari bandaríska meistaramótsins, sem fer fram síðar í ágústmánuði.

Í yfirlýsingu frá Alþjóða fimleikasambandinu, FIG, segir að skráning Biles á mótið gefi það sterklega til kynna að hún nálgist endurkomu í bandaríska landsliðið.

Í tilkynningu frá fimleikasambandi Bandaríkjanna segir að allir sem hyggist taka þátt þurfi að skrá sig á Classic-mótið, en að skráning ein og sér tryggi ekki þátttöku.

Biles hefur á mögnuðum ferli unnið til sjö verðlauna á Ólympíuleikum, þar af fjögur gull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert