Bætti brautarmetið í Laugavegshlaupinu

Andrea Kolbeinsdóttir í dag.
Andrea Kolbeinsdóttir í dag. Ljósmynd/Sebastian Storgaard

Andrea Kolbeinsdóttir bætti brautarmetið í Laugavegshlaupinu sem fór fram í 27. sinn í blíðskaparveðri í dag. 

579 hlauparar tóku af stað í Landmannalaugum og lögðu leið sína yfir í Þórsmörk en leiðin er 55 kílómetrar að lengd. 

Andrea tók sig til og sigraði í kvennaflokki á tímanum 04:22:56 en hún bætti brautarmetið í kvennaflokki annað árið í röð. Íris Anna Skúladóttir kom önnur í mörk á tímanum 04:47:47 en í þriðja sæti var Halldóra Huld Ingvarsdóttir á tímanum 04:59:48. 

Í karlaflokki sigraði Arnar Pétursson 04:00:08, en hann hann bætti fyrra met sitt í hlaupinu um fjórar mínútur. Á eftir Arnari kom Þorbergur Ingi Jónsson á tímanum 04:04:11 og á eftir honum í þriðja sæti var Þorsteinn Roy Jóhannsson á tímanum 04:06:13.

Frábær mæting áhorfenda vakti mikla lukku og studdu þeir vel við bakið á duglegum hlaupurum. Keppendur hvíldu svo lúnar lappir í Húsadal og gæddu sér á köldum drykkjum og rjúkandi heitum hamborgurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert