Það var hratt ekið í kappakstri mótorhjóla er tvær lotur voru keyrðar á kappakstursbraut Kvartmíluklúbbsins á sunnudaginn var. Tíu keppendur mættu til leiks, en það er aukning frá fyrstu umferðinni á dögunum, og stefndi í grjótharða keppni strax í tímatökunum.
Baráttan um besta tímann í tímatökunum var grjóthörð en brautarmethafinn Stefán Orlandi bætti eigið brautarmet er hann ók brautina á 1:23,578 mínútu. Annar var Árni Þór Jónsson og þriðji á ráspól var Jóhann Leví Jóhannsson en skammt á eftir honum voru þeir Ingólfur Snorrason og Ármann Guðmundsson.
Fyrri keppnislotan byrjaði af krafti, en Stefán Orlandi á Honda CBR600RR tók strax forystuna og á eftir honum komu Árni Þór og Jóhann Leví. Dramatíkin úr fyrsta Íslandsmóti hélt þó áfram hjá Árna þar sem hann missti stjórn á hjóli sínu í lok fyrsta hrings og rann út af brautinni. Stefán hélt öruggri forystu út alla tíu hringina og á eftir honum komu Jóhann Leví á Suzuki GSXR600, Ingólfur Snorrason á Yamaha R6 og Ármann Guðmundsson á Honda CBR600RR.
Stefán Orlandi hélt uppteknum hætti í seinni lotu dagsins, hélt forystu strax frá fyrsta hring og setti enn og aftur brautarmet, á 1:23,401 mínútu. Jóhann Leví og Ingólfur börðust um tíma um annað sætið en Jóhann skilaði sér aftur annar á besta tíma á 1:24,720 mínútu og Ingólfur endaði þannig þriðji. Íslandsmeistari síðustu tveggja ára, Ármann Guðmundsson, var um tíma fjórði en féll í áttunda hring og helltist þannig úr lestinni.
Ármann hefur verið gríðarlega sterkur undanfarin ár, en óheppnin hefur elt hann þetta tímabilið þar sem hann hefur átt við tæknilega örðugleika að stríða í hjóli sínu.
Eftir aðra umferð Íslandsmótsins er staðan eftirfarandi: Stefán Orlandi í fyrsta sæti með 95 stig, annar er Jóhann Leví Jóhannsson með 76 stig, þriðji er Ingólfur Snorrason með 61 stig, fjórði er Ingvar Samúelsson með 46 stig, fimmtu til sjöttu eru Bjartur Snær Róbertsson og Sveinn Logi Guðmannsson með 38 stig, Ármann Guðmundsson er sjöundi með 26 stig, Árni Þór Jónsson áttundi með 25 stig, Eiður Arnarson er níundi með 16 stig og Guðmundur Bjarni Karlsson er tíundi með 10 stig.
„Já, þetta var mjög góður dagur fyrir mig, ánægður að ná tveimur sigrum og setja þessi brautarmet. En það sem að ég var hvað ánægðastur með var hraðinn hjá mér í Keppnislotu 2. Náði að keyra þar undir 1:24 næstum alla hringina og er ég mjög ánægður með þann stöðuleika! Svo langar mig að lokum að þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem komu að keppninni, því án þeirra er þetta ekki hægt,“ sagði Stefán Orlandi eftir magnaðan árangur á sunnudaginn.