Anton í undanúrslit og Snæfríður sló Íslandsmetið

Anton Sveinn McKee í lauginni í Furuoka í morgun.
Anton Sveinn McKee í lauginni í Furuoka í morgun. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Anton Sveinn McKee er kominn í undanúrslit í 200 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í sundi í 50 metra laug í Furuoka í Japan og Snæfríður Sól Jórunnardóttir sló Íslandsmet í 100 metra skriðsundi í nótt og var hársbreidd frá því að komast áfram.

Anton varð níundi í undanrásunum og fór því örugglega áfram en efstu sextán komust í undanúrslit. Hann synti á 2:10,29 mínútum en Íslandsmet hans frá 2017 er 2:08,74 mínútur.

Hann mun því keppa í undanúrslitunum laust fyrir hádegið í dag.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir í lauginni í Furuoka í morgun.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir í lauginni í Furuoka í morgun. Simone Castrovillari

Snæfríður var í gríðarlega harðri baráttu um að komast áfram og kom í markið á nýju Íslandsmeti, 54,74 sekúndur. Hún fékk nákvæmlega sama tíma og Kalla Antoniou frá Kýpur og þar sem þær deildu 17. sætinu fóru þær í umsund þar sem Snæfríður sigraði á 54,87 sekúndum gegn 55,06 sekúndum hjá Antoniou.

Snæfríður er því fyrsti varamaður inn í undanúrslitin og fær tækifæri til að keppa þar fyrir hádegið ef einhver af þeim sextán sem urðu fyrir ofan hana þarf að draga sig úr keppni. 

Fyrra met Snæfríðar frá því á Smáþjóðaleikunum í Möltu í vor var 54,97 sekúndur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert