Anton sjöundi á HM og heimsmetið féll

Anton Sveinn McKee býr sig undir sundið í Furuoka í …
Anton Sveinn McKee býr sig undir sundið í Furuoka í dag. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Anton Sveinn McKee hafnaði í sjöunda sæti í úrslitasundinu í 200 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Furuoka í Japan en því var að ljúka.

Anton náði frábærum tíma, 2:09,50 mínútur, og var með fremstu mönnum fram á lokasprettinn í sundinu en þá stakk Kínverjinn Haiyang Qin af og setti nýtt heimsmet, 2:05,48 mínútur.

Anton varð níundi í undanrásunum í gær og komst með því í sextán manna undanúrslitin á 2:10,29 mínútum og náði svo sjöunda sætinu í undanúrslitunum á 2:09,19 mínútum þar sem hann tryggði sér keppnisréttinn í átta manna úrslitasundinu. Um leið tryggði hann sér sæti á Ólympíuleikunum í París á næsta ári.

Íslandsmet Antons í greininni frá árinu 2017 er 2:08,74 mínútur.

Zhihao Dong, frá Kína, sem varð fjórði setti heimsmet unglinga, 2:08,04 mínútur.

Lokaúrslit átta bestu í heiminum í 200 metra bringusundi:

1. Haiyang Qin, Kína, 2:05,48 (heimsmet)
2. Zac Stubblety-Cook, Ástralíu, 2:06,40
3. Matt Fallon, Bandaríkjunum, 2:07,74
4. Zhihao Dong, Kína, 2:08,04 (heimsmet unglinga)
5. Caspar Corbeau, Hollandi, 2:08,42
6. Ippei Watanabe, Japan, 2:08,78
7. Anton Sveinn McKee, Íslandi, 2:09,50
8. Josh Matheny, Bandaríkjunum, 2:10,41

Haiyang Qin frá Kína fagnar heimsmetinu sem hann setti í …
Haiyang Qin frá Kína fagnar heimsmetinu sem hann setti í úrslitasundinu. Ljósmynd/Simone Castrovillari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert