Stórbætti mótsmetið

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir stórbætti mótsmetið í dag.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir stórbætti mótsmetið í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Tvö mótsmet féllu á ÍR-vellinum í dag þegar annar dagur Meistaramóts Íslands í frjálsíþróttum fór fram í Mjóddinni.

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir úr ÍR stórbætti metið í sleggjukasti þegar hún kastaði 65,21 metra en fyrri metið átti Íslandsmetshafinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir með 62,30 metra.

Kastið er rétt við besta árangur Guðrúnar en hún hefur lengst kastað 65,42 metra. Vigdís Jónsdóttir kastaði næst lengst eða 60,81 metra og þriðja lengst kastaði Birna Jóna Sverrisdóttir, 47,31 m.

Þá bætti Hlynur Andrésson úr ÍR fjórtán ára gamalt mótsmet Björns Margeirssonar í 1500 metra hlaupi. Hlynur kom í mark á tímanum 3:53,28 mínútur en fyrra metið var 3:54,66 mínútur. Í öðru sæti var Fjölnir Brynjarsson úr FH og í þriðja Stefán Kári Smárason.

Ellefta árið í röð var það Íslandsmethafinn Hilmar Örn Jónsson úr FH sem kastaði lengst í sleggjukasti. Hann kastaði lengst 73,74 metra. Ingvar Freyr Snorrason úr ÍR var annar. 

Hilmar Örn Jónsson vann ellefta árið í röð.
Hilmar Örn Jónsson vann ellefta árið í röð. mbl.is/Hákon Pálsson

Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki stórbætti tveggja ára aldursflokkamet Glódísar Eddu Þuríðardóttur í 100 metra grindahlaupi . Júlía kom í mark á tímanum 13,77 sekúndum, en gamla metið var 14 sekúndur. Þetta er næst hraðasti rafmagnstími í kvennaflokki frá upphafi en Íslandsmetið á Guðrún Arnardóttir og er það 13,18 sek. Í öðru sæti í hlaupinu var Sara Kristín Lýðsdóttir á 16,03 sek sem

Daníel Ingi Egilsson sigraði langstökkið með miklu yfirburðum en hann stökk lengst 7,8 metra. Næst lengst stökk Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson úr Breiðabliki eða 6,86 metra.

Íslandsmethafinn Hafdís Sigurðardóttir úr UFA stökk lengst í langstökki kvenna eða 6,29 metra. Það munaði aðeins einum sentímetra á efstu tveimur sætunum en Irma Gunnarsdóttir varð önnur með 6,28 metra stökk.

Andrea Kolbeinsdóttir úr ÍR kom fyrst í mark í 1500 metra hlaupi á tímanum 4:35,12 mínútur. Önnur varð Íris Anna Skúladóttir úr FH á tímanum 4:45,44 mínútur. 

Í 110m grindahlaupi karla var það þrautarkappinn Ísak Óli Traustason sem kom fyrstur í mark á tímanum 14,90 sek. (+3,5) í öðru sæti varð Árni Haukur Árnason (ÍR) á tímanum 15,15 sek. og Guðmundur Heiðar Guðmundsson (FH) varð þriðji á 15,18 sek.

Elías Óli Hilmarsson úr FH stökk hæst allra í hástökki karla eða 1,92 metra. Næsthæst stökk Ægir Örn Kristjánsson úr Breiðabliki eða 1,87 metra. 

Ísold Sævarsdóttir vann 400 metra hlaupið en hún kom í mark á tímanum 57,46 sekúndur. Í öðru sæti varð Ingibjörg Sigurðardóttir úr ÍR á tímanum 58,84 sekúndur.

Karlamegin kom Sæmundur Ólafsson úr ÍR fyrstur í mark á tímanum 49,96 sekúndur. Hermann Þór Ragnarsson varð annar á tímanum 50,93 sekúndur. 

Meistaramótinu lýkur á morgun en fyrir enn frekari upplýsingar er hægt að skoða fri.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert