Nýkrýndir bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík misstigu sig þegar liðið heimsótti Aftureldingu í 1. deild kvenna í knattspyrnu í 15. umferð deildarinnar að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.
Hlín Heiðarsdóttir kom Aftureldingu yfir strax á 5. mínútu áður en Hulda Ösp Ágústsdóttir jafnaði metin fyrir Víking á 65. mínútu.
Maya Neal kom Aftureldingu yfir á nýjan leik á 82. mínútu en Hulda Ösp jafnaði metin með öðru marki sínu í uppbótartíma og þar við sat.
Víkingur er með 33 stig í efsta sæti deildarinnar en Afturelding er í fimmta sætinu með 24 stig.
HK styrkti stöðu sína í þriðja sætinu með naumaum 3:2-sigri gegn KR á Meistaravöllum í Vesturbæ.
Koldís María Eymundsdóttir kom KR yfir á 9. mínútu áður en Emily Sands, Brookelynn Entz og Isabella Eva Aradóttir skoruðu fyrir HK. Jewel Boland varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 82. mínútu en það kom ekki að sök.
HK er með 29 stig en KR er með 7 stig í níunda sætinu, 9 stigum minna en Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir, og svo gott sem fallið þegar þremur umferðum er ólokið.
Þá hafði Grótta betur gegn Grindavík í markaleik í Grindavík, 5:3. Hannah Abraham, Ariela Lewis, Hallgerður Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir skoruðu mörk Gróttu en Jasmine Colbert skoraði tvívegis fyrir Grindavík og Ragnheiður Tinna Hjaltalín eitt mark.
Grótta er með 27 stig í fjórða sætinu en Grindavík er í því sjötta með 22 stig.
Þá vann Fylkir stórsigur gegn Augnabliki í Árbænum, 7:1, þar sem Eva Rut Ásþórsdóttir og Guðrún Karítast Sigurðardóttir skoruðu tvívegis fyrir Fylki og þær Tinna Harðardóttir, Erna Sólveig Sverrisdóttir og Birna Kristín Eiríksdóttir eitt mark hver. Edith Kristín Kristjánsdóttir skoraði mark Augnabliks.
Fylkir er í öðru sætinu með 29 stig en Augnablik er fallið með 4 stig í neðsta sætinu.