FIFA hefur dæmt Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins, í 90 daga bann frá allri knattspyrnutengdri starfsemi á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
Þá hefur FIFA einnig meinað Rubiales að gera tilraunir til að hafa samband við Jenni Hermoso, leikmann spænska kvennalandsliðsins. BBC greinir frá.
Ákvörðunin er tekin í kjölfar þess að Rubiales kyssti Hermoso á munninn eftir að lið Spánar varð heimsmeistari í fótbolta í Sydney í Ástralíu á dögunum. Forsetinn hefur neitað að segja af sér vegna málsins.
Hermoso hefur sagt að kossinn hafi verið í óþökk hennar en knattspyrnusambandið hefur dregið hennar hlið sögunnar í efa.
Spænskar fótboltakonur, 81 talsins, hafa sagt að þær muni ekki leika fyrir þjóð sína á meðan Rubiales er forseti sambandsins. Þá hefur sóknarmaður karlaliðs Real Betis, Borja Iglesias einnig sagt að hann muni ekki leika fyrir þjóð sína á ný á meðan forsetinn situr fastur við sinn keip.