„Ég missti töluvert af svefni í ferðalaginu svo þessir dagar eru til þess að vinna upp svefn og orku og æfa. Svo maður verði ekki alveg grillaður á keppnisdegi,“ sagði Eygló Fanndal Sturludóttir sem keppir á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Riyahd í Sádi-Arabíu.
„Þetta lítur allt mjög vel út. Ég er spennt og undirbúningurinn hefur gengið mjög vel. Mér líður vel og það gengur vel á æfingum hérna úti og þetta er allt bara að smella saman,“ sagði Eygló í samtali við mbl.is
Eygló á Íslandsmetið í samanlögðu og var einnig fyrsta íslenska konan til að snara 100 kg.
„Ég á núna 220 í samanlögðu og langar að bæta það til þess að koma mér ofar á listann og ná að bæta mig, svo markmiðið er 220 plús, það væri frábært.
Ég vil líka ná meira í snörun. Markmiðið núna er að reyna að komast hærra en hundrað svo sjáum við bara hvernig það fer,“ sagði Eygló.
Amalía Ósk Sigurðardóttir og Katla Björk Ketilsdóttir fóru út með Eygló en þær kepptu í gær og eru núna farnar heim.
„Þær voru að keppa í sama flokki og það gekk mjög vel hjá þeim báðum. Þær eru báðar að koma til baka eftir smá fjarveru svo það gekk bara mjög vel. Þær eru farnar heim núna svo ég er núna með þjálfaranum mínum, osteópata og formanni Lyftingasambandsins,“ sagði Eygló.
Amalía og Katla kepptu í gær í 64 kg flokki en Eygló keppir á fimmtudaginn í 71 kg flokki.
„Við erum að fara í moll núna og þetta lítur mjög vel út. Við megum gera nánast allt held ég. Við þurfum bara að vera hóflega klædd. Þeir sem eru að halda mótið eru svo með menningarferð þar sem við keyrum um með bílstjóra á morgun svo maður fær alveg að sjá smá þó maður sé að æfa líka.“
Eygló hefur farið til framandi landa til þess að keppa í ólympískum lyftingum sem ekki allir fá að upplifa.
„Við erum búin að vera að ræða það mikið í ferðinni hvað þetta er ótrúlega skemmtileg íþrótt að þessu leyti. Maður fær að fara á svo geggjaða staði.
Aðrar íþróttir eru ekki endilega að fara á svona staði og upplifa svo mikið. Núna er það Sádi, ég var á Kúpu, næst er það Úsbekistan og svo er Taíland á næsta ári. Þetta er ótrúlega skemmtilegt,“ sagði Eygló.
„Ólympíuleikarnir eru eina mótið sem ég hef ekki komist inn á svo það er stærsta markmiðið núna sem mig langar að ná að tékka af listanum.
Það kemur ekkert í ljós með það fyrr en í apríl eða maí á næsta ári svo það er löng bið að vita hvort ég nái að komast eða ekki,“ sagði Eygló í samtali við mbl.is.