Eygló bætti öll Íslandsmet sín

Eygló Fanndal Sturludóttir.
Eygló Fanndal Sturludóttir. Ljósmynd/LSÍ

Lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir náði frábærum árangri og bætti öll sín eigin Íslandsmet með sex glæsilegum lyftum á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Riyadh í Sádi-Arabíu í morgun.

Eygló keppti í B-riðli í 71 kg flokki og lyfti mest 102 kg í snörun, 123 kg í jafnhendingu og þar með 225 kg í samanlögðu.

Þar með bætti hún eigin Íslandsmet: um 2 kg í snörun, 2 kg í jafnhendingu og 5 kg í samanlögðu.

Eygló átti fyrstu lyftuna í B-riðlinum og byrjaði á öruggri 95 kg snörun, hún hækkaði því næst í 99 kg og náði því einnig nokkuð örugglega. Að lokum hækkaði hún í 102 kg, sem jafnframt er bæting á hennar eigin Íslandsmeti um 2 kg og henti þeirri þyngd upp eins og ekkert væri. Hún var á þessum tímapunkti þriðja í B-riðlinum eftir snörunina.

Í jafnhendingu opnaði Eygló með 116 kg lyftu sem fór örugglega upp, þyngdi í 120 kg sem hún tók einnig örugglega og var þá komin með nýtt Íslandsmet í samanlögðu, 222 kg.

Hún þyngdi að lokum í 123 kg og negldi henni upp eins og öllum hinum lyftunum sínum og bætti þar sitt eigið Íslandsmet í jafnhendingu um 2 kg og 5 kg í samanlögðu.

Hún er í fjórða sæti í B-riðli í jafnhendingu og í öðru sæti í samanlögðum árangri.

Alls eru 56 keppendur í 71 kg flokknum í fimm riðlum.

Endanleg úrslit ráðast þegar þær tíu konur sem keppa í A-riðli klukkan 16 að íslenskum tíma hafa lokið keppni í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert