Læknaneminn og lyftingavalkyrjan Eygló Fanndal Sturludóttir skákaði öllum sínum Íslandsmetum í ólympískum lyftingum á heimsmeistaramótinu í Sádi-Arabíu í dag. Eygló hefur notið byrs í öllum seglum undanfarið og vex fiskur um hrygg sem aldrei fyrr. Hún sagði mbl.is af mótinu.
„Ég keppti í B-riðlinum í -71 kílós flokknum, þar er raðað eftir því hvar maður stendur og ég rétt náði inn í B-riðilinn,“ segir Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingakona og læknanemi á þriðja ári, í samtali við mbl.is en Íslandsmetin riðuðu til falls þegar Eygló steig á pallinn á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Riyadh í Sádi-Arabíu í morgun.
Hafnaði Eygló í 17. sæti í samanlögðu í sínum flokki, þar sem 53 konur öttu kappi, 16. sæti í snörun og 21. sæti í jafnhendingu. „Þetta gekk bara ótrúlega vel, ég held að ég hafi náð að hoppa upp um 30 sæti, fékk sex af sex lyftum gildar,“ segir Eygló enn fremur.
Eftir því sem skrifari Lyftingasambandsins ritar á síðu þess náði Eygló „sturluðum árangri með Íslandsmetaregni og 6 gullfallegum lyftum“.
Reif Eygló upp 102 kíló í snörun án þess að blása úr nös, 123 í jafnhendingu og náði þar með samanlagða árangrinum 225 kílóum, bætti þar með öll sín eigin Íslandsmet með glæsibrag.
„Ég var í öðru sæti í B-riðlinum sem var bara frábært,“ segir læknaneminn sem heldur betur hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin misseri og bætir sig nánast undantekningarlaust.
„Næst er ég að fara að keppa í Katar í desember á úrtökumóti fyrir Ólympíuleikana svo fram að því verð ég bara heima að æfa og læra,“ segir Eygló að lokum, sátt við árangur sinn í Sádi-Arabíu í dag.
Fram undan er Norðurlandamót unglinga í kraftlyftingum í Lillestrøm í Noregi um helgina sem mbl.is mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með og færa lesendum tíðindi af hópi sextán keppenda sem þangað munu halda í víking.