Sóttu fimmtán verðlaun til Lúxemborgar

Íslensku keppendurnir sem fóru til Lúxemborgar.
Íslensku keppendurnir sem fóru til Lúxemborgar. Ljósmynd/KAÍ

Ísland hlaut samtals fimmtán verðlaun á níunda Smáþjóðamóti Evrópu í karate sem fram fór í Lúxemborg um helgina.

Karatesamband Íslands sendi sautján keppendur á mótið og þeir komu heim með tvenn gullverðlaun, fimm silfurverðlaun og átta bronsverðlaun.

Karen Vu sigraði í stúlknaflokki -47 kg og varði þar titil sinn frá því á síðasta ári.

Samuel Josh Ramos sigraði í -67 kg flokki karla og hlaut bronsverðlaun í U21 árs flokki.

Filip Leon Kristófersson og Davíð Steinn Einarsson unnu til silfurverðlauna, Ísold Klara Felixdóttir fékk silfur og brons og Eydís Magnea Friðriksdóttir fékk tvö silfur og eitt brons.

Guðmundur Týr Haraldsson, Una Borg Garðarsdóttir og Sunny Songkun náðu í bronsverðlaun í sínum flokkum.

Þá vann karlalið Íslands bronsverðlaun en liðið skipuðu þeir Samuel Ramos, Hannes Magnússon og Þórður Henrysson.

Ennfremur unnu Karen Vu og Una Borg Garðarsdóttir til bronsverðlauna í liðakeppni stúlkna.

Tveir Íslendingar stóðust alþjóðlegt dómarapróf í Lúxemborg, þeir Aron Bjarkason og Jóhannes Felix Jóhannesson sem eru þar með báðir með SSEKF-dómararéttindi.

Landsliðsþjálfararnir Sadik Aliosman Sadik í kumite og Magnús Kr. Eyjólfsson í kata voru með í för og þeim til aðstoðar voru Elías Guðni Guðnason og Svana Katla Þorsteinsdóttir. Reinharð Reinharðsson, formaður KAÍ og stjórnarmaður í framkvæmdastjórn Smáþjóðasambands Evrópu, SSEKF, fór fyrir hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert