Karlalið Skautafélags Reykjavíkur fer síðar í þessari viku til Litháen þar sem það tekur þátt í fyrstu umferð Evrópukeppni félagsliða, Continental Cup, sem er leikin í Kaunas.
SR varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili og fékk því keppnisrétt á mótinu þar sem félagið tekur nú þátt í fyrsta skipti. Esja reið á vaðið árið 2017 sem fyrsta íslenska liðið sem tók þátt í mótinu og Skautafélag Akureyrar hefur tekið þátt frá árinu 2018. SA komst þá í 2. umferð og er eina íslenska liðið sem hefur náð því.
Lið SR heldur út til Kaunas á fimmtudag þar sem B-riðill fyrstu umferðar er spilaður frá föstudegi til sunnudags. A-riðill mótsins fer fram í Jaca á Spáni á sama tíma en þar etja kappi meistararnir frá Búlgaríu, Tyrklandi, Belgíu og Spáni. Sigurvegarar beggja riðla fara svo áfram í aðra umferð og mæta þar liðum úr hærri styrkleikaflokki.
Í B-riðli mætir SR þremur liðum á jafnmörgum dögum. Á föstudaginn eru það HC Panter frá Eistlandi, á laugardag KHL Zagreb frá Króatíu og svo er lokaleikur liðsins gegn gestgjöfunum HC Kaunas City frá Litháen.
Riðillinn er spilaður í nýrri Skautahöll Kaunasborgar en það er 800 sæta heimavöllur gestgjafanna sem opnaður var í fyrra. Liðið sjálft á heldur ekki langa sögu því það var stofnað árið 2017. Þrjú félög eru í Litháen en öll spila þau í lettnesku deildinni.
Það er því ljóst, í ljósi sögunnar, að SR-ingar eiga erfitt verkefni fyrir höndum í Litháen um næstu helgi. Þó getur allt gerst eins og dæmin sýna.