Gunnlaugur Thoroddsen stýrir liði Íslandsmeistaranna í Skautafélagi Reykjavíkur sem tekur þátt í fyrstu umferð Evrópukeppni félagsliða í Kaunas í Litháen um næstu helgi.
Gunnlaugur hefur haldið um þjálfarataumana síðustu tvö tímabil og er þetta því þriðja tímabilið hans með liðið. Hann gerði SR nokkuð óvænt að Íslandsmeisturum á síðasta tímabili en það tryggði liðinu einmitt þátttökurétt í Evrópukeppninni.
Gunnlaugur þjálfaði Esju þegar hún fór fyrst íslenskra liða í Continental Cup, eins og keppnin heitir, og þjálfar nú SR í sinni fyrstu ferð utan landsteinanna.
Hefur þú eitthvað kynnt þér andstæðingana og áttar þú þig eitthvað á því hvar við stöndum gagnvart þeim?
„Sum þessara liða eru kannski á pari við okkur en spila mikið fleiri leiki og búa því að meiri reynslu. En það er rosalega erfitt að segja fyrirfram til um hvar við stöndum á móti þeim það en þetta virðast vera góð lið. Ég er búinn að horfa á leiki með Kaunas. Þeir eru með leikmenn frá Úkraínu, Tékklandi, Finnlandi og fleiri löndum og spila í sameiginlegri deild ásamt liðum frá hinum Eystrasaltslöndunum. “
Hverjar eru væntingarnar þínar til þessa móts?
„Markmiðið er auðvitað að vinna mótið, vinna alla þrjá leikina. Lágmarkið er að vinna einn leik - væri semi-sáttur við það.“
Mun þetta mót hjálpa liðinu fyrir titilvörnina á þessu tímabili?
„Já alveg svakalega. Það er rosalega mikilvægt að fá þessa þrjá leiki við önnur sterk lið, sérstaklega fyrir ungu gaurana í liðinu. Mjög dýrmætt að fá að spila í þessari keppni og fá reynsluna.“
Nú hafa orðið einhverjar breytingar á liðinu frá síðasta tímabili. Níels farinn til Noregs en Jóhann Björgvin markvörður komin heim frá Tékklandi. Eru einhverjar aðrar breytingar á hópnum?
„Nei ekki miklar en Ævar Arngríms og Axel Orongan eru báðir meiddir og óljóst hvenær þeir koma til baka.“
En svo er hópurinn að fá liðsstyrk fyrir helgina - reynslubolti sem er að ganga til liðs við SR. Hvað getur þú sagt okkur um hann?
„Já þetta er 30 ára tékkneskur sóknarmaður sem er búinn að spila marga leiki í tékknesku deildunum og víðar. Á síðasta tímabili var hann í 3ju deildinni í Tékklandi. Hann er með flotta ferilskrá og ég er mjög spenntur að sjá hann spila.“
Íslandsmeistaratitilinn í vor var þinn annar titill en þú stýrðir Esju til sigurs 2017. Getur þú sagt mér aðeins frá muninum titlum frá sjónarhorni þjálfarans?
„Esjuliðið var mjög sterkt og við unnum nánast alla leiki í deildinni. Þá voru 24 leikir þar sem liðin voru fjögur. En þó svo að deildin hafi gengið vel þá var spenna fyrir úrslitakeppnina gegn Akureyri þar sem þeir eru búnir að vinna titilinn 100 sinnum eða eitthvað álíka. Það tókst að leggja þá sem var mjög skemmtilegt.
Núna með SR var þetta svo óvænt. Þessi titill var, hvað á maður að segja, bara allt öðruvísi. Varla hægt að bera þetta saman.
Við mættum rosalega vel undirbúnir í úrslitakeppnina. Umgjörðin í kringum liðið var líka svakalega flott og nefni bara sem dæmi Olgeir liðstjóra sem átti stóran þátt í sigrinum, vann alveg eins og brjálæðingur alla úrslitakeppnina. Svo studdi félagið auðvitað líka mjög vel við bakið á okkur.
Við vorum underdogs í þessari rimmu og eiginlega stálum titlinum bara af þeim, svona í ljósi þess að þeir rústuðu deildarkeppninni. Þetta var mikið afrek að hafa tekist þetta, finnst mér.“
Nú hefur titilvörnin í Hertz-deildinni farið brösulega af stað, enginn sigur í húsi eftir fyrstu tvo leikina.
„Já það eru meiðsli í gangi og þó nokkuð margir að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Í báðum þessum leikjum hafa þetta verið jafnar períódur að undanskildri þeirri annarri í leiknum fyrir norðan gegn Akureyri. Svo ég er ekkert grenjandi yfir þessu eða með gríðarlegar áhyggjur. En ég spái því að deildin í vetur verði miklu jafnari en áður.“
Þorir þú eitthvað að spá fyrir tímabilinu, hverjir fara í úrslit t.d.?
„Ég þori nú ekkert að spá í hverjir fara í úrslit. En Fjölnir er að styrkja sig mjög mikið, þeir verða hættulegir í vetur. Þeir eiga eftir að bæta við sig fleiri leikmönnum og eru komnir með mjög góðan markvörð.
Það eru bara tveir leikir búnir af deildinni en þetta verður mjög spennandi vetur.“
Hvernig er liðið stemmt fyrir Evrópukeppninni í Litháen um helgina?
„Það er bara mjög góð stemning, leikmennirnir eru mjög spenntir og búnir að bíða eftir þessu í allt sumar. Þetta er auðvitað í fyrsta skiptið sem SR fer í þessa keppni og þetta verður mikilvæg og dýrmæt reynsla fyrir okkur," sagði Gunnlaugur Thoroddsen.
Höfundur er Bjarni Helgason hjá Skautafélagi Reykjavíkur.