Thelma með sinn besta árangur í fjölþraut

Thelma Aðalsteinsdóttir hafnaði í 66. sæti á HM.
Thelma Aðalsteinsdóttir hafnaði í 66. sæti á HM. mbl.is/Óttar Geirsson

Thelma Aðalsteinsdóttir hafnaði í 66. sæti og Margrét Lea Kristinsdóttir í 99. sæti þegar þær tóku þátt á HM í áhaldafimleikum í Antwerp í Belgíu í kvöld.

Thelma vann sér inn 12.300 stig í stökki, 12.166 á tvíslá, 12.133 á jafnvægisslá og 12.500 á gólfi. Samtals fékk hún því 49.099 stig, hefur aldrei fengið fleiri stig, en er úr leik.

Náði hún sínum besta persónulega árangri í fjölþraut á HM og á enn möguleika á því að komast á Ólympíuleikana í París á næsta ári.

Margrét Lea vann sér inn 12.166 stig í stökki, 11.100 á tvíslá, 10.866 á jafnvægisslá og 11.833 á gólfi. Hún hlaut samtals 45.965 stig og er sömuleiðis úr leik.

Hin íslenska Eyþóra Þórsdóttir, sem keppir fyrir hönd Hollands, stóð sig sérstaklega vel og hafnaði í 24. sæti með því að vinna sér inn samtals 52.199 stig.

Það þýðir að Eyþóra er búin að tryggja sér sæti í úrslitum HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert