Rússar í bann vegna landtöku

Ólympíuleikarnir fara fram í París á næsta ári.
Ólympíuleikarnir fara fram í París á næsta ári. AFP/Julien De Rosa

Alþjóðaólympíunefndin, IOC, hefur úrskurðað Ólympíusamband Rússlands í bann fyrir að brjóta gegn ólympíustofnskránni, sem tiltekur lög, reglugerðir og stefnur nefndarinnar.

Framkvæmdastjórn IOC tók þessa ákvörðun í gær vegna landtöku Rússlands í Úkraínu.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur varað í að verða 20 mánuði og hafa Rússar til að mynda komið á fót íþróttaráðum í fjórum héruðum í austurhluta Úkraínu.

Embættismenn á vegum Ólympíusambands Rússlands samþykktu í síðustu viku að sett yrðu upp íþróttaráð í Donetsk, Kherson, Luhansk og Zaporizhzhia og ákvað IOC að bregðast við því.

Bannið hefur sem stendur ekki nein bein áhrif á rússneskt íþróttafólk sem hyggst taka þátt í alþjóðlegum viðburðum á hlutlausum grundvelli, þ.e. keppir ekki undir merkjum Rússlands.

IOC gæti þó tekið ákvörðun um að banna íþróttafólk með rússneskt vegabréf með öllu og áskilur sér rétt til þess að gera það eftir hentugleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert