Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Íþróttaunnendur hafa tekið eftir því að keppnistímabilin í boltagreinunum hér á landi eru farin að renna saman bæði á vorin og haustin. Knattspyrnan er sumaríþrótt hér við nyrsta haf en Íslandsmótið í knattspyrnu er orðið lengra en áður. Fyrir vikið þekkist ekki lengur að leikmenn leiki í efstu deild í tveimur boltagreinum en nokkuð var um það á árum áður.
Arna Steinsen er líklega á meðal þeirra síðustu sem náðu að verða Íslandsmeistarar í meistaraflokki bæði í knattspyrnu og í handknattleik. Var hún í stóru hlutverki hjá meistaraliðunum og landsliðskona í báðum greinum um tíma. Hefur hún auk þess þjálfað í báðum greinum.
Arna varð Íslandsmeistari í knattspyrnu með KR árið 1993. Hún lék með KR um tólf ára skeið og var jafnan miðtengiliður. Einnig lék hún fyrir Fram og FH á knattspyrnuferlinum. Árið 1989 var hún kjörin besti leikmaður Íslandsmótsins á lokahófi KSÍ.
Arna var vinstri hornamaður í afar sigursælu liði Fram í handknattleiknum en liðið varð Íslandsmeistari sjö ár í röð 1984-1990. Hún var einnig komin inn í leikmannahópinn hjá Fram sem varð meistari 1980.
Á myndinni er Arna í leik með Fram gegn Stjörnunni í Laugardalshöllinni seint á níunda áratugnum en rimmur þessara liða vöktu oft mikla athygli. Myndina tók Einar Falur Ingólfsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið í áratugi.
Arna Steinsen lék 11 A-landsleiki í knattspyrnu og skoraði 1 mark og 42 A-landsleiki í handknattleik og skoraði 39 mörk.
Fyrir áhugafólk um (íþrótta)ættfræði þá er dóttir Örnu, Erna Guðrún Magnúsdóttir í knattspyrnuliði Víkings sem varð bikarmeistari síðsumars. Nokkuð sem fáir bjuggust við þar sem liðið lék í næstefstu deild.