Caster Semenya frá Suður-Afríku, tvöfaldur ólympíumeistari í 800 metra hlaupi kvenna, er hætt að stefna á verðlaun á stórmótum en einbeitir sér að því að vinna baráttu sína í réttarsölum gegn World Athletics, Alþjóða frjálsíþróttasambandinu.
Hún freistar þess að knésetja alþjóðasambandið þar sem hún telur það beita íþróttafólk með óvenjulegt magn af testósteróni í líkama sínum misrétti með löggjöf sinni. Sjálf fékk hún að kenna snemma á mótlætinu með því að þurfa 18 ára gömul árið 2009 að gangast undir próf til að sanna að hún væri kona eftir að hún vann gullverðlaun í 800 metra hlaupinu á heimsmeistaramótinu í Berlín.
Alþjóða frjálsíþróttasambandið breytti reglum sínum í sambandi við testósterón árið 2015 og aftur árið 2018, en frá þeim tíma þurfa íþróttakonur sem greinast með of hátt testósterón í líkamanum og keppa í nokkrum greinum frjálsíþrótta, m.a. á öllum vegalengdum þar sem Semenya keppir, að taka inn lyf til að lækka magnið niður fyrir ákveðin mörk.
Barátta Semenyu snýst um að hnekkja þessum reglum en hún brást m.a. við þeim með því að reyna fyrir sér í greinum sem féllu ekki undir þær, svo sem 200 metra hlaupi og 5.000 metra hlaupi, en náði ekki ólympíulágmörkum í þeim.
Semenya er ekki hætt að æfa en hún er orðin 32 ára og er farin að einbeita sér að þjálfun ásamt baráttu sinni fyrir dómstólunum.
„Síðasta tækifæri mitt til að vinna ólympíugull var árið 2016, ég stefni ekki til Parísar. Nú stefni ég frekar á sigur í baráttu minni við yfirvöldin og fyrir réttlætinu,“ sagði Semenya við Reuters en hún vann gullið í 800 metrunum í Lundúnum 2012 og Ríó 2016.
„Ég hef unnið allt sem ég vildi vinna á hlaupabrautinni. Þeim hefur aldrei tekist að koma í veg fyrir að ég yrði frábær íþróttamaður. Ég var ósigruð í fjögur ár, en ég er búin að skila mínu. Nú berst ég ekki fyrir því að fá að keppa, nú berst ég fyrir réttlætinu, fyrir hönd næstu kynslóða, vegna þess að fjölmörg börn þurfa að gjalda fyrir reglurnar sem nú eru í gildi. Baráttunni er ekki lokið, við förum með hana alla leið,“ sagði hún.
Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði Semenyu í hag í júlí en hún kærði ríkisdómstól í Sviss þangað fyrir að sinna ekki af alvöru máli hennar þegar því var vísað á bug af Alþjóða íþróttadómstólnum, Court of Arbitration for Sport.
„Ég berst fyrir réttlætinu, mennskunni og því að fá að vera með. Og ég berst fyrir hönd allra kvenna í heiminum. Kynslóðin sem nú er að taka við má ekki lenda í því sama og ég. Hún verður að fá sanngjarna meðhöndlun,“ sagði Semenya sem telur að reglur Alþjóða frjálsíþróttasambandsins stuðli að kynþáttamisrétti.
„Engin sem er ljós á hörund þarf að hafa áhyggjur af reglugerðinni. Aðeins konur sem eru dökkar á hörund. Það er einföld staðreynd. Þetta hefur bara áhrif á Afríkufólk og Asíubúa. Maður spyr því: Eru hagsmunir allra íþróttakvenna hafðir að leiðarljósi eða eru það hagsmunir ákveðinna kvenna?“ sagði Semenya, en Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur hafnað þessari túlkun hennar og segir að allir standi jafnt að vígi gagnvart reglunum um magn testósteróns. Í Afríku séu slíkar mælingar hins vegar gerðar seinna á aldursskeiði barna en annars staðar í heiminum.