Alex í 10. sæti á HM í Vilníus

Alex Cambrey Orrason á mótinu í Vilníus, einn þriggja Íslendinga …
Alex Cambrey Orrason á mótinu í Vilníus, einn þriggja Íslendinga sem þar stíga á pall. Ljósmynd/Kraftlyftingasamband Íslands

„Þetta gekk bara nokkuð vel, ég var samt að vonast eftir aðeins betri árangri, gekk ekki allt eftir en var samt allt í lagi,“ segir Alex Cambrey Orrason, kraftlyftingamaður úr KA, sem lokið hefur keppni á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem nú stendur yfir í Vilníus í Litáen.

Keppti Alex í -93 kg flokki þar sem keppendur voru fimmtán og hafnaði í tíunda sæti. „Ég tók 325 kíló í hnébeygju, 202,5 í bekkpressu og 282,5 kíló í réttstöðulyftu,“ segir Alex sem þar með á 810 kg í samanlögðu eftir mótið.

„Ég rétt náði upp 340 kílóa hnébeygju í þriðju lyftu en hún var dæmd ógild, tveir dómarar gegn einum,“ segir Alex sem fór ekki nógu djúpt í beygjuna áður en hann hóf stöngina upp á við á ný. Munaði aðeins hársbreidd en reglur eru reglur.

Spenntur og í góðum anda

Gild síðasta lyfta hefði skilað Alex í sjöunda sæti í þyngdarflokknum en svo varð þó ekki að þessu sinni en hann keppti hér á sínu öðru heimsmeistaramóti.

Mótið lagðist vel í Alex sem var vel stemmdur á keppnisdaginn, „ég var mjög spenntur og í góðum anda og sterkur á keppnisdaginn. Þetta var bara svona stöngin út dagur en mér gekk yfir höfuð nokkuð vel,“ segir Alex sem er á leið á Íslandsmeistaramót í mars og Evrópumeistaramót í maí svo nóg er á dagskránni fram undan hjá KA-manninum.

Um helgina keppa þau Guðfinnur Snær Magnússon og Sóley Margrét Jónsdóttir sem bæði hafa látið sverfa til stáls á mótum síðustu árin og er Sóley talin „í dauðafæri með heimsmeistaratitil“ eins og Hinrik Pálsson, formaður Kraftlyftingasambandsins, orðaði það við mbl.is fyrir mótið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert