Írski bardagakappinn Conor McGregor segir að hann hafi á ferli sínum í UFC í blönduðum bardagalistum stuðst við karatestíl vegna Gunnars Nelsons, en þeir voru liðsfélagar og æfðu saman um langt árabil.
McGregor sat fyrir svörum á X-aðgangi sínum í gær og var þar spurður hvernig það hafi komið til að hann hafi byrjað að styðjast við karatestíl í bardögum sínum.
„Með því að æfa með Gunnari Nelson varð þessi stíll til í æfingabúðum okkar. Það var gífurlega erfitt að berjast gegn þessu og því fór ég að styðjast við þetta sjálfur.
Ég bætti því við sem var nothæft, tók út það sem var það ekki og bætti við ýmsu sem var fullkomlega mitt eigið. Ég var Bruce Lee endurfæddur!“ skrifaði McGregor.