Hársbreidd frá heimsmeistaratitlinum

Sóley (vinstra megin við hlið Gaston Parage, forseta Alþjóðakraftlyftingasambandsins) kokhraust …
Sóley (vinstra megin við hlið Gaston Parage, forseta Alþjóðakraftlyftingasambandsins) kokhraust á silfurpallinum eftir frábæra frammistöðu á HM í Vilníus. Þessi unga kraftlyftingakona hefur nálgast topp heimsmælikvarðans á ógnarhraða síðustu misseri og verður veisla að fylgjast með samskiptum hennar við stálið næstu árin. Ljósmynd/Kraft.is

Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingakona hafnaði í öðru sæti í +84 kg flokki á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði í Vilníus í Litáen um helgina eftir æsispennandi keppni við hina bresku Katrinu Sweatman en keppendur í flokknum voru alls átta. Í þriðja sæti var hin úkraínska Valentyna Zahoruiko sem komst þó ekki með tærnar þar sem Sóley og Sweatman höfðu hælana.

„Hnébeygjan gekk ótrúlega vel og allt samkvæmt óskum,“ segir Sóley í samtali við mbl.is, „ég opnaði þægilega á 250 kílóum, hækkaði svo í 270 og nældi í gullið með seinustu beygjunni, 277,5 kílóum. Allar lyfturnar fóru upp á ógnarhraða og það var klárlega meira en nóg inni,“ heldur þessi öfluga kraftlyftingakona áfram sem farið hefur með himinskautum á alþjóðlegum mótum síðustu ár og ekki kallað allt ömmu sína eins og mbl.is hefur fjallað um í viðtölum við hana.

Bekkpressan gekk brösuglega

Dómararnir féllust greinilega á það með Sóleyju að hún skilaði stönginni skuldlaust upp í beygjunni, þrjú hvít ljós í öllum lyftum og þar með gildar lyftur að mati allra þriggja dómara. Slíkt er ekki sjálfgefið.

Auðunn Jónsson, sjálft Kópavogströllið, íþróttastjóri og aðalþjálfari Kraftlyftingasambands Íslands, að …
Auðunn Jónsson, sjálft Kópavogströllið, íþróttastjóri og aðalþjálfari Kraftlyftingasambands Íslands, að vonum stoltur af valkyrjunni sem hjó nærri heimsmeistaratitli um helgina. Ljósmynd/Kraft.is

Næst var komið að guðsgreininni svokölluðu, bekkpressunni. „Bekkpressan gekk brösuglega og ég endaði með opnunarþyngdina sem ég náði í annarri tilraun,“ segir Sóley en sá árangur, 180 kg, dugði henni þó til silfurverðlauna í greininni. „Eftir það hækkaði ég í 192,5 kíló og ég hef ekki svörin við því hvers vegna hún fór ekki upp, þetta er þyngd sem ég á að geta tekið örugglega,“ segir Sóley án þess að votti fyrir svekkelsi. Dagsformið er mismunandi og þar getur heldur betur skilið milli feigs og ófeigs, líklega þekkja þá staðreynd fáir betur en kraftlyftingafólk.

Að lokum var komið að réttstöðulyftunni, deddinu svokallaða sem alltaf er jafn myndræn grein á stórmótum þar sem öflugasta kraftlyftingafólk heims gefur ekki þumlung eftir.

„Þar sem ég náði einungis einni gildri lyftu í bekkpressunni dróst ég svolítið aftur úr Katie [Katrinu Sweatman] og þurfti að vinna mig upp með réttstöðunni sem er mín langveikasta grein,“ segir Sóley frá. „Ég tók fyrstu tvær lyfturnar, 190 og 200 kíló, létt og með miklu öryggi. Þá var komið að lyftunni sem réð lokaúrslitum. Ég þurfti að ná 212,5 kílóum í réttstöðulyftunni til þess að tryggja mér gullið. Ég náði upp þeirri lyftu en hún var dæmd ógild, tveir á móti einum, og úrslitin þar með komin á hreint,“ segir Sóley af lokarimmunni við Bretann öfluga en íslenska valkyrjann lauk keppni með 200 kg og brons í réttstöðu.

Hvernig upplifðirðu einvígið við Sweatman?

„Ég hafði enga hugmynd um hvort og þá hverja ég væri í samkeppni við í keppninni sjálfri. Auðunn Jónsson [íþróttastjóri og aðalþjálfari Kraftlyftingasambands Íslands] og Hinrik Pálsson [formaður sambandsins] sáu um alla útreikninga og ákváðu hvað væri skynsamlegast að melda á stöngina hverju sinni. Það eina sem ég þurfti að hugsa um var að lyfta því – sem minnkaði stressið töluvert,“ segir Sóley í léttum dúr.

Stálstúlkurnar Katrina Sweatman og Sóley stilla sér upp eftir æsispennandi …
Stálstúlkurnar Katrina Sweatman og Sóley stilla sér upp eftir æsispennandi lokarimmu þar sem Bretinn hafði betur...í þetta skiptið. Ljósmynd/Kraft.is

Teningunum kastað

Þegar henni var tjáð að síðasta réttstöðulyftan skæri úr um hvort hún endaði með gull eða silfur um hálsinn var teningunum kastað.

„Ég þráði ekkert meira en að enda með gullið þennan dag og ég var ótrúlega einbeitt og tilbúin í að rífa upp seinustu réttstöðulyftuna og koma heim með titilinn. Ég gaf allt í og náði að klára lyftuna sem var svo dæmd ógild vegna þess að stöngin seig aðeins á uppleið,“ segir Sóley af lokalyftunni. Eigi má sköpum renna eins og þar segir.

„Það er auðvitað smá sorg sem fylgir því að vita að gullið færi ekki heim að þessu sinni,“ segir kraftlyftingakonan hreinskilnislega. „En svona á samkeppni að vera og ég samgleðst henni Katie af öllu hjarta því ég veit að hún þráði og gaf allt sem hún gat fyrir titilinn, rétt eins og ég,“ heldur Sóley áfram og blaðamanni vöknar um stund um augu þótt hann myndi aldrei viðurkenna það opinberlega. Ekki skortir íþróttaandann þar sem Sóley Margrét Jónsdóttir er á fleti fyrir.

„Þetta var ótrúlega fínt og spennandi mót og ég skemmti mér konunglega. Ég er himinlifandi með að hafa náð öðru sæti og skapað svona frábærar minningar með frábæru fólki,“ segir Sóley í lokadómi sínum um HM í Vilníus.

Þrusufínt mót

Aðspurð kveður hún undirbúning fyrir mótið hafa gengið vel. „Uppkeyrslan gekk vonum framar í hnébeygjunni og bara nokkuð smurt í bekkpressunni. Ég æfi ekki réttstöðulyftuna sjálfa vegna álagsbrots og annarra meiðsla sem ég hef verið með í bakinu síðustu sjö ár þannig að ég tek bara nóg af æfingum sem styrkja réttstöðuna. Ég tók tvær léttar réttstöðulyftur fyrir mótið en það var bara til þess að fá smá tilfinningu fyrir lyftunni,“ útskýrir Sóley.

Varstu sátt við mótið í heildina og þína frammistöðu?

„Þetta var bara þrusufínt mót,“ svarar Sóley um hæl, „ég náði ekki að skila mínu besta í bekkpressunni en það er líka bara hluti af þessu. Það getur ekki allt gengið upp og maður þarf að vera búinn undir það. Ég er mjög ánægð með silfrið og ekki leiðinlegt að vera í námunda við gullið. Það mikilvægasta er að ég skemmti mér konunglega og ég get ekki beðið eftir að bæta mig enn meira,“ segir Sóley full bjartsýni sem árangur hennar síðustu misseri gefur svo sannarlega tilefni til.

Íslenski keppnishópurinn á HM í Vilníus. Fremst situr Sigurjón Ægir …
Íslenski keppnishópurinn á HM í Vilníus. Fremst situr Sigurjón Ægir Ólafsson sem keppti í Special Olympics-hluta mótsins en viðtal við þjálfara hans birtist á mbl.is síðar í dag ásamt umfjöllun um Guðfinn Snæ Magnússon sem hreppti fjórða sætið í +120 kg flokki. Ljósmynd/Kraft.is

Engin lognmolla er fram undan fremur en endranær, EM í Lúxemborg í maí og HM á Íslandi sem einnig er úrtökumót fyrir einvígi risanna, World Games. „Næsta ár verður seinasta árið mitt sem junior [U-23] og þar verður allt gefið til þess að ná að skila inn heimsmetunum,“ segir Sóley Margrét Jónsdóttir að lokum, ein skærasta kraftlyftingastjarna landsins sem sannarlega á nóg inni á komandi árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert