HM á Íslandi 2024

Hinrik Pálsson, formaður Kraftlyftingasambands Íslands, er ánægður með HM í …
Hinrik Pálsson, formaður Kraftlyftingasambands Íslands, er ánægður með HM í Vilníus en á næsta ári dregur til tíðinda þegar Íslendingar verða í gestgjafahlutverkinu og halda HM. Ljósmynd/Kraft.is

„Þetta mót var mjög jákvæð upplifun, við vorum með fjóra keppendur í heildina, þar af einn í Special Olympics-flokki, og gekk öllum bara frábærlega vel,“ segir Hinrik Pálsson, formaður Kraftlyftingasambands Íslands, í samtali við mbl.is um nýafstaðið heimsmeistaramót í kraftlyftingum með búnaði í Vilníus í Litáen en keppendurnir hafa verið hér í viðtölum síðustu daga.

„Guðfinnur [Snær Magnússon] tók þarna fjórða sætið og Sóley [Margrét Jónsdóttir] annað sæti og þær tvær sem börðust þar um toppsætið voru talsvert langt á undan öllum hinum í flokknum, úrslitin réðust þar í síðustu lyftu. Andinn í hópnum var frábær og ferðin bara vel heppnuð í alla staði,“ heldur Hinrik áfram en á næsta ári dregur til tíðinda að hans sögn.

Með undirbúningsnefndina út

„Við höldum heimsmeistaramótið í kraftlyftingum með búnaði á Íslandi á næsta ári,“ segir formaðurinn frá og kveður undirbúning þegar hafinn en Kraftlyftingasambandið hafi tekið mótið að sér með stuttum fyrirvara, Indland hafi átt að vera næst í röðinni en staðan verið tæp þar og Íslendingar því hlaupið undir bagga.

„Við notuðum þess vegna tækifærið núna til að fara með undirbúningsnefndina út til Vilníus svo hún gæti kynnt sér málin svo við erum bara að safna í sarpinn og læra. En það sem er sérstakt við mótið á næsta ári er að það gildir sem úrtökumót fyrir World Games,“ segir Hinrik frá.

Íslenski hópurinn á mótinu um helgina.
Íslenski hópurinn á mótinu um helgina. Ljósmynd/Kraft.is

Heimsleikar þessir eru að sögn Hinriks eins konar litli bróðir Ólympíuleikanna, þar sé keppt í ýmsum greinum sem séu við það að verða teknar inn sem ólympíugreinar en leikarnir verða næst í Kína árið 2025. Íslenska kraftlyftingafólkið Júlían J.K. Jóhannsson og Sóley Margrét Jónsdóttir hafa bæði fengið boð um að keppa á Heimsleikunum en Sóley forfallaðist þar vegna meiðsla.

Segir Hinrik að reikna megi með 300 keppendum í kraftlyftingum næst og ber Alþjóðakraftlyftingasambandið fyrir þeirri tölu sem er nokkur fjölgun frá því á síðustu leikum. Verður því til mikils að vinna fyrir keppendur, íslenska sem aðra, á HM á Íslandi 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert