„Karlinn er í gríðarlegu formi“

Guðfinnur vígalegur í réttstöðunni sem var hans langbesta grein á …
Guðfinnur vígalegur í réttstöðunni sem var hans langbesta grein á mótinu og tryggði honum nýja þyngd í samanlögðu, 1.027,5 kg. Ljósmynd/Alþjóðkraftlyftingasambandið/IFP

„Mótið gekk ekki alveg að óskum en þó vel,“ segir Guðfinnur Snær Magnússon kraftlyftingamaður í samtali við mbl.is en hann hafnaði í fjórða sæti í fjölmennum +120 kg flokki á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði í Vilníus í Litáen um helgina en þeir voru sextán sem öttu kappi í +120 að þessu sinni.

Guðfinnur játar þó að hann beri saman við Vestur-Evrópumótið á Íslandi í september þar sem hann náði þeim glæsilega árangri að hreppa fyrsta sætið í sínum flokki og rennir svo yfir mótið með mbl.is.

„Ég lyfti 407,5 kílóum í hnébeygju sem var fimm kílóa bæting frá Vestur-Evrópumótinu. Reyndi svo við Íslandsmet í hnéybeygju sem er 417 kíló og verður tekið von bráðar,“ segir Guðfinnur glettinn en stöngin með því hlassi vildi ekki upp hjá honum þessa helgina.

Guðfinnur á leið í lyftu á mótinu um helgina. Þeir …
Guðfinnur á leið í lyftu á mótinu um helgina. Þeir Júlían J.K. Jóhannsson eru á leið til Austin í Texas í maí þar sem þeir verða gestalyftarar á ameríska meistaramótinu. Ljósmynd/Alþjóðakraftlyftingasambandið/IFP

„Bekkurinn gekk illa, ég tók bara opnunarþyngdina mína sem var 300 kíló en á fullkomnum degi hefði önnur þyngdin mín farið upp sem var 312,5 kíló en það fór ekki svo, því miður,“ segir hann frá bekkpressunni en síðari þyngdin hefði skilað honum bronsi í greininni á þessu móti.

1.027,5 kg í samanlögðu

Hann var hins vegar ánægður með réttstöðulyftuna í Vilníus. „Ég opnaði létt með 295 kílóum, stökk úr því í 310, hvort tveggja léttar lyftur, og hoppaði svo í 320 og tryggði mér þar góða bætingu í tótali [samanlagðri þyngd]. Helstu góðu punktarnir eru náttúrulega að ná tveimur svona góðum mótum með svona stuttu millibili þannig að karlinn er í gríðarlegu formi,“ segir Guðfinnur en þess má geta að samanlagða þyngdin hans á mótinu var 1.027,5 kg.

Fram undan hjá honum er Íslandsmeistaramót í mars og svo er verið að ræða um það að ég og Júlían [J.K. Jóhannsson] förum saman til Austin í Texas og keppum á ameríska meistaramótinu sem gestalyftarar í maí,“ segir Guðfinnur af dagskránni fram undan. „Svo er bara að halda áfram að æfa og leggja hrikalega vel inn fyrir næsta keppnisár,“ segir hann ótrauður.

Aðspurður kveður hann undirbúninginn fyrir HM hafa gengið vel þrátt fyrir væga þreytu eftir Vestur-Evrópumótið. „En við náðum að losa hana virkilega vel út og í raun og veru gekk allt vonum framar,“ segir Guðfinnur Snær Magnússon að lokum, fram undan hjá honum Íslandsmeistaramót í mars og ævintýraför til Texas sem gestalyftari að vori.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert